Við skulum öll biðja!

Iggy Pop hefur engu gleymt á sviði. Nema þá helst …
Iggy Pop hefur engu gleymt á sviði. Nema þá helst röddinni. AFP/Francois Nascimbeni

Gamalreyndir rokkarar hafa átt betri daga en að undanförnu en Carlos Santana, Iggy Pop, Guns N’Roses, Whitesnake og fleiri hafa þurft að fresta tónleikum vegna veikinda. Kornið sem fyllti mælinn var svo flugvél rokkbands sem bilaði. 

Gestum á tónleikum Carlosar Santana varð ekki um sel þegar gítargoðið leið út af á miðjum tónleikum í Clarkston, Michigan, í vikunni. Ljósin voru deyfð meðan bráðaliðar hlúðu að Santana og skömmu síðar var tilkynnt að tónleikunum væri lokið. „Við skulum öll biðja, við þurfum á því að halda. Vinsamlega sendið þessum manni ljós ykkar og ást,“ sagði maður úr starfsliði hins tæplega 75 ára gamla Santana. Að sögn miðilsins Variety var gítarleikarinn þó með meðvitund þegar hann var borinn af sviðinu og veifaði til áhorfenda. Síðar um kvöldið sendi talsmaður Santana frá sér yfirlýsingu þess efnis að farið hefði verið með hann í skyndingu á bráðamóttöku spítala í grenndinni, þar sem hann hefði verið meðhöndlaður.

Carlos Santana skaut aðdáendum sínum skelk í bringu í vikunni.
Carlos Santana skaut aðdáendum sínum skelk í bringu í vikunni. AFP/Hector Guerrero


Ekki leið svo á löngu þangað til Santana sjálfur kvaddi sér hljóðs. „Takk fyrir ykkar dýrmætu bænir,“ skrifaði hann á Facebook. „Ég er að hvíla mig. Ég gleymdi að borða og drekka, þannig að ég ofþornaði og féll í ómegin. Blessi ykkur öll.“

Það fór sum sé betur en á horfðist en tónleikum Santana í Burgettstown, Pennsylvania, kvöldið eftir var að læknisráði frestað.

Röddin að hrella Iggy

Annað roskið goð, Iggy Pop, sem fæddur er sama ár og Santana, neyddist einnig til að fresta tvennum tónleikum á Evróputúr sínum í vikunni vegna raddleysis. Í yfirlýsingu viðurkenndi Iggy að hann hefði rumið sig með herkjum gegnum tónleika í Aþenu um liðna helgi og röddin þoldi einfaldlega ekki meira í bili.

 „Þetta er ekki gert af neinni léttúð. Ég ann aðdáendum mínum. En ég verð að vernda röddina. Ég harma þetta en mun snúa aftur og bæta ykkur þetta upp,“ sagði hann í yfirlýsingu.

Gott að vera heima

Ekki er langt síðan Whitesnake þurfti að hætta leik á miðjum Evróputúr vegna veikinda söngvarans, Davids Coverdales, sem stendur á sjötugu. Hann greindist með sýkingu í barka og ennisholum. Kappinn hlóð í færslu á Twitter í vikunni, þar sem fram kom að hann væri enn ekki orðinn 100% góður „… en ég er glaður að vera kominn heim … Að vera veikur á hóteli á tónleikaferðalagi er hundfúlt. Vona að þú og þínir hafið það gott, hvar sem þið eruð niðurkomin. Þið vitið að þið eruð elskuð og njótið virðingar … XXX“.

David Coverdale í Laugardalshöll um árið. Þá var hann við …
David Coverdale í Laugardalshöll um árið. Þá var hann við hestaheilsu. mbl.is/Golli


Það er gömul saga og ný að Coverdale gangi úr skaftinu vegna veikinda en eins og mörgum Íslendingum er í fersku minni þá missti hann af seinni tónleikum Whitesnake í Reiðhöllinni í Víðidal haustið 1990.

Aðrir Íslandsvinir, Guns N’ Roses, þurftu einnig að fresta tónleikum í Glasgow í vikunni vegna veikinda og að læknisráði, að því er fram kom í yfirlýsingu frá sveitinni. Fólk var þó hvatt til að halda miðum sínum, því unnið væri að því hörðum höndum að finna nýja dagsetningu. Ekki kom fram hver eða hverjir liðsmanna GNR væru veikir eða af hvaða toga veikindin væru en Axl Rose söngvari tjáði gestum á tónleikum bandsins í Lundúnum um liðna helgi að röddin væri eitthvað að stríða honum. Hann neyddist til að mynda til að sleppa hinni vinsælu ballöðu November Rain af þeim sökum. Á henni hefur Rose ekki klikkað síðan gullaldarlið GNR kom aftur saman árið 2016.

Axl og Slash voru með hressasta móti í Laugardalnum fyrir …
Axl og Slash voru með hressasta móti í Laugardalnum fyrir fjórum árum. Hvað hrjáir þá nú? mbl.is/Valli


Komust ekki í loftið

Liðsmenn enn eins rokkbandsins, Korn, eru við hestaheilsu en urðu eigi að síður að hætta við að vera aðalnúmerið á Resurrection Fest í Viveiro á Spáni um síðustu helgi. Ástæðan er sú að flugvélin, sem átti að flytja þá félaga á staðinn, bilaði.

Í yfirlýsingu frá bandinu kom fram að menn hefðu verið komnir alla leið um borð í vélina en hún hefði hreinlega neitað að fara í loftið. „Við erum þakklátir fyrir skilninginn og erum miður okkar yfir því að geta ekki verið með ykkur. Við komum fljótt aftur! Þangað til …“

Nánar er fjallað um veikindi og almennar hremmingar rokkara í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar