Rithöfundurinn og kvikmyndagerðarkonan Sarah Thomas dvaldi hér á landi um árabil og hefur nú gefið endurminningar sínar frá dvölinni á Vestfjörðum út á bók. Verkið The Raven's Nest kom út fyrir helgi.
Thomas kom fyrst hingað til lands vorið 2008. Þá var haldin ráðstefna mannfræðinga sem fást við heimildarmyndagerð á Ísafirði. „Ég hafði mun meiri áhuga á því sem fór fram utan við ráðstefnubygginguna. Þetta var seint í maí og það varð varla dimmt. Ég var virkilega heilluð af staðnum.“
Þannig kynntist hún landinu í fyrsta sinn og síðan gripu örlögin í taumana. „Ástæðan fyrir því að ég endaði á því að flytja hingað var sú að ég gisti hjá nokkrum listamönnum sem voru vinir vinar míns og þeir buðu mér sumarvinnu í Landmannalaugum. Ég þáði það enda hafði ég séð myndir af staðnum og hugsaði með mér: „Guð minn góður, fæ ég að búa þarna?““ Störfum hennar fyrir Tate-safnið í London var einmitt lokið og því hentaði þetta vel.
Síðan kynntist Thomas íslenskum manni og þau ákváðu að láta reyna á samband. „Við fundum hús nálægt fjölskyldunni hans. Þannig endaði ég í Hnífsdal og ég myndi segja að reynslan af því að búa þar hafi gert mig að rithöfundi.“
Thomas lagði þó ekki upp með að skrifa bók um dvölina. „Planið var að búa til heimildarmynd, eitthvað um seiglu, því ég tók eftir því að Vestfirðingar eru ótrúlega seigt fólk.“
En þrátt fyrir að hafa tekið upp mikið myndefni mistókst Thomas, að eigin sögn, að búa til kvikmynd.
„Ég var þjálfuð í að taka upp kvikmyndir þannig að kvikmyndagerðarmaðurinn gerir sjálfan sig ósýnilegan, er eins og fluga á vegg. En þegar ég var útlendingur að reyna að aðlagast menningunni var eitthvað skrýtið við að þykjast vera ósýnileg.“
Svo það sem hún hafði lært gagnaðist lítið og henni fannst hún sitja uppi með sundurlaust myndefni.
„Það að skrifa bókina var viss leið til þess að taka upp kvikmyndina upp á nýtt. Í texta getur maður staðsett myndavélina upp á nýtt eða farið aftur á bak í tíma og rifjað upp. Svo mér líður eins og ég hafi gert kvikmynd með orðum.“
Það að hún hafi verið að reyna að gera kvikmynd segir hún að hafi gert það að verkum að minningarnar greiptust sérstaklega skýrt í huga hennar. Hún man vel eftir samtölum, ljósinu og umhverfinu af því að hún hugsaði með sér: „Ég vildi að ég væri að taka þetta upp.“ Þannig reyndist auðvelt að fanga smáatriðin í texta.
„Ég gifti mig, skildi og flutti burt og að því loknu fannst mér ég hafa risastóra sögu að segja sem varð að fá einhvern farveg. Ég byrjaði bara að skrifa sem einhvers konar æfingu en svo las fólk það sem ég hafði skrifað og sagði að ég yrði að gera eitthvað við þetta,“ segir Thomas.
Þrátt fyrir að loftslagsváin sem við stöndum frammi fyrir sé ekki beinlínis til umfjöllunar í The Raven's Nest er greinilegt að það er þema sem liggur undir niðri.
Spurð hvort loftslagsmálin séu henni mikilvæg segir Thomas: „Orðið „mikilvægt“ nær ekki einu sinni utan um það. Við lifum öll í þessum aðstæðum og hverjum þeim sem þykir þetta ekki mikilvægt er bara ekki að fylgjast með. Ég er ekki að segja að það sé gagnlegt að vera í stöðugu kvíðaástandi en þetta er veröldin sem við búum í og ég stend í þeirri trú að þetta sé í rauninni það eina sem vert er að skrifa um. En þú munt ekki finna orðið loftslagsbreytingar í bókinni eða neitt þess háttar,“ segir hún en tekur dæmi um hvernig þau koma þó fram í verkinu.
„Eitt sinn þá hringdi ég frá Kenya, þar sem foreldrar mínir búa, heim til mannsins míns til þess að heyra í honum hljóðið og þá hafði ísbirni skolað á land á Hornströndum og hann verið skotinn. Ég fer í gegnum það símtal og þannig bendi ég óbeint á það sem er að gerast.“
Talið berst að upplifun Thomas af því að búa á Vestfjörðum.
„Eitt af því sem hvatti mig til þess að láta verða af því að flytja til Íslands var að ég var viss um að þetta væri staður sem myndi neyða mig til þess að hugsa öðruvísi og það gerir hann enn þann dag í dag. Ég er enn að reyna að átta mig á mörgu af því sem ég lærði þegar ég bjó þar. Það var mjög erfitt en ég held það hafi líka verið mjög mikilvægt fyrir mig að þurfa að hugsa hlutina upp á nýtt. Við komumst á ákveðinn aldur og gleymum því hvað við erum mótuð af því samfélagi sem við höfum alist upp í. Það er gott að því sé stundum kollvarpað, sérstaklega á tímum erfiðleika þar sem maður þarf nýjar hugmyndir.“
Hvað var það í fari Vestfirðinga sem var ólíkt því sem þú áttir að venjast?
„Þetta viðhorf þeirra og kannski Íslendinga allra að „bara prófa“. Þetta var eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á íslensku: „Bara prófa.“ Ég hafði alist upp við að til þess að fá leyfi til þess að gera eitthvað þá þyrfti maður einhvers konar menntun, reynslu eða annað sem gerði mann hæfan. En þegar ég fór í fyrsta sinn í leitir þá hélt ég að ég myndi bara standa til hliðar og horfa á og kvikmynda. En mér varð það fljótt ljóst að þar sem ég væri með auka sett af höndum þá yrði ég að hjálpa til.“
Annað sem hafði djúpstæð áhrif á Thomas var að læra íslensku. „Ég tala tungumálið ekki reiprennandi en ég varð að læra það til þess að aðlagast samfélaginu og fjölskyldunni sem ég var við það að giftast inn í. Fyrrverandi tengdafaðir minn sagði mér að hann talaði ekki ensku. Það kom síðar í ljós að hann talaði alveg ensku en það tók mig tvö ár að komast að því.“
Thomas heillaðist af því hve ljóðræn íslenska tungan er. „Uppáhalds orðið mitt er til dæmis „bergmál“, tungumál fjallanna, og með þessu eina orði hætta fjöllin að vera þessir stóru grjóthnullungar heldur lifna við. Ég er ekki viss um að Íslendingar hugsi um þetta í hvert sinn sem þeir heyra orðið „bergmál“.“
Thomas er á ferðalagi um landið þessa dagana og mun lesa upp úr bók sinni í gömlu bókabúðinni á Flateyri á morgun kl. 16 og í Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri á sunnudag kl. 19:30.
The Raven's Nest er fáanleg hjá Pennanum Eymundssyni.
Lengri útgáfu þessa viðtals má finna í Morgunblaðinu.