Konunglegir álitsgjafar telja líklegt að drottningin vilji ekki birta niðurstöður rannsóknar á meðferð hirðarinnar á Meghan og Harry vegna þess hversu illa Meghan kemur út úr rannsókninni.
Drottningin skipaði að úttekt færi fram á vegum óháðra aðila eftir að Harry og Meghan komu fram í margnefndum Opruh Winfrey þætti og sakaði hirðina um einelti og fordóma. Nú hefur hins vegar verið tilkynnt að niðurstöður rannsóknarinnar munu aldrei koma fyrir sjónar almennings.
Jason Knauf var fjölmiðlafulltrúi hjónanna og er sagður hafa lagt fram kvörtun til mannauðsdeildarinnar um hegðun Meghan í garð starfsmannanna. Duncan Larcombe telur það ólíklegt að starfsmenn innan hallarinnar stefni frama sínum í hættu með því að ljúga um Harry og Meghan. Og því sé líklegra að úttektin hafi rennt stoðum undir þær ásakanir að Meghan hafi komið illa fram við starfsfólkið.
Með því að birta ekki skýrsluna vill drottningin koma í veg fyrir frekari átök innan fjölskyldunnar og er með þessu móti að leita sátta við Harry prins. Þá sé hún einnig hrædd um að verði niðurstöðurnar birtar þá hlaupi Harry og Meghan aftur til Opruh Winfrey og endurtaki leikinn.