Fyrrum hafnaboltakapinn Alex Rodriquez eða A-Rod segist ekki sjá eftir sambandinu við Jennifer Lopez. Hann talaði um sína fyrrverandi við Mörtu Stewart í hlaðvarpsþætti hennar, The Martha Stewart Show.
„Það sem ég get sagt ykkur um Jennifer er að hún er hæfileikaríkasta manneskja sem ég hef verið í kringum. Dugnaðarforkur og mér finnst hún vera besti listamaður í heiminum sem er á lífi í dag,“ sagði Rodriquez um Lopez.
Þau byrjuðu fyrst að hittast í febrúar 2017 og voru saman í rúm fjögur ár. Þau hættu saman nokkrum mánuðum eftir að þau trúlofuðu sig.
„Við skemmtum okkur mjög vel saman en það sem við gerðum virkilega vel var að setja börnin okkar alltaf í fyrsta sæti,“ sagði Rodriguez.
Rodriquez á tvær dætur, Ellu og Natöshu, með fyrrverandi eiginkonu sinni Cynthia Scurtis. Lopez á tvíburana Emme og Maximillian með fyrrverandi eiginmanni sínum Mark Anthony.