Snúa bræðurnir sér við í gröfinni?

Philip Anselmo á tónleikum með The Illegals árið 2019.
Philip Anselmo á tónleikum með The Illegals árið 2019. AFP/Ethan Miller

Hér um bil tveimur áratugum eftir að það leystist upp ætlar eitt áhrifamesta málmband sögunnar, Pantera, að koma saman að nýju á næsta ári; það er að segja þeir liðsmenn sem enn eru á lífi, Philip Anselmo söngvari og Rex Brown bassaleikari. Þetta staðhæfir tónlistartímaritið Billboard.

Umboðsskrifstofan Artist Group International (AGI) er þegar farin að skipuleggja túr um Bandaríkin. „Við erum himinlifandi að vera að vinna með svona goðsagnakenndu bandi að því að færa aðdáendunum tónlist þess á ný,“ sagði Peter Pappalardo hjá AGI en málið hvílir á herðum hans og Dennis nokkurs Arfa, fyrir þá lesendur sem þekkja vel til í umboðsmennskubransanum.

Hinir tveir úr gullaldarliði Pantera á tíunda áratugnum, bræðurnir Dimebag Darrell gítarleikari og Vinnie Paul Abbott trymbill, eru báðir fallnir frá. Dimebag var myrtur á sviði síðla árs 2004, á tónleikum þáverandi bands síns Damageplan, en Vinnie Paul lést 2018 af völdum hjartabilunar.

Rex Brown var bassaleikari Pantera nánast frá upphafi. Hann snýr …
Rex Brown var bassaleikari Pantera nánast frá upphafi. Hann snýr nú aftur. AFP/Jesse Grant


Ekki liggur fyrir hverjir koma til með að leysa þá af hólmi á næsta ári en margir eru kallaðir.
Bræðurnir stofnuðu Pantera árið 1981 og afplánuðu fyrstu árin á akri glysmálmsins. Skeið sem þeir vildu síðar kannast sem minnst við. Rex Brown gekk í bandið 1982 en það var ekki fyrr en skipt var um gír með komu Anselmos 1987 að hjólin fóru að snúast. Á fimmtu plötu Pantera, Cowboys from Hell, sem kom út 1990, kvað við allt annan tón og ný sena varð til, grúvmálmur.

Meðan glysböndin voru flögguð rangstæð, hvert á fætur öðru, sigldi Pantera seglum þöndum og varð eitt vinsælasta tónleikaband tíunda áratugarins, þéttara en upphandleggirnir á Dolph gamla Lundgren.

Vulgar Display of Power (1992), Far Beyond Driven (1994), The Great Southern Trendkill (1996) og Reinventing the Steel (2000) komu í kjölfarið og juku hróður Pantera.
Andinn á heimilinu þykknaði þó með árunum og undir það síðasta var orðið ansi hreint grunnt á því góða milli Abbott-bræðra og Anselmos. Bandið liðaðist hægt og rólega í sundur og dánarvottorð var formlega gefið út í árslok 2003 og menn héldu sína leið. Bræðurnir stofnuðu Damageplan og hinir tveir sinntu sínum verkefnum.

Unnustan kvaðst mundu skjóta hann í höfuðið

Slík var óvildin í garð Anselmos að unnusta Dimabags, Rita Haney, lét sem frægt er hafa eftir sér að hún myndi „skjóta hann í höfuðið“ ef hann léti sjá sig við útförina.

Dimebag Darrell var skotinn til bana árið 2004.
Dimebag Darrell var skotinn til bana árið 2004. AFP


Anselmo hefur nokkrum sinnum viðrað endurkomu Pantera en Vinnie Paul skaut þær hugmyndir alltaf umsvifalaust niður meðan hann var á lífi. Nú er hann genginn og Anselmo upplýsti í hlaðvarpsþætti fyrir skömmu að þeir Rex Brown hefðu átt í viðræðum um að koma saman á ný undir merkjum Pantera en Anselmo hefur verið duglegur að flytja það efni með bandi sínu, The Illegals. „Rex sér hvað ég er að gera með The Illegals og kann að meta það. Því meira sem ég held Pantera á lífi þeim mun betra fyrir hann.“

Maður kemst hins vegar ekki hjá að velta fyrir sér hvað Abbott-bræðrum hefði fundist. Koma þeir til með að feykja flösu að gömlum sið eða snúa sér við í gröfum sínum?

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar