Karlmaður á fertugsaldri var skotinn til bana í morgun þar sem hann sat inni í bíl á tökustað þáttanna Law & Order: Organized Crime, í New York í Bandaríkjunum. Maðurinn var bílastæðavörður á tökustaðnum en hefur ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum.
Samkvæmt Variety var maðurinn skotinn klukkan 05:15 að staðartíma og var úrskurðaður látinn um klukkan sex að morgni á Woodhull-spítalanum. Bíllinn var staðsettur í Greenpoint hverfinu í Brooklyn. Á árásarmaðurinn að hafa gengið upp að bifreiðinni, opnað dyrnar og hleypt af skoti.
Rannsókn lögreglu er hafin en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.
„Við erum afar hrygg og í áfalli eftir að hafa frétt af því að einn af starfsmönnum okkar var fórnarlamb árásar snemma í morgun og er nú látinn,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu NBC og studio Universal Television, sem sjá um framleiðslu þáttanna.
Þar kom einnig fram að fyrirtækin ynnu með lögregluyfirvöldum að rannsókn málsins.