Nordic Live Event stendur að baki tónleikunum Rokk í Reykjavík, sem haldnir verða þann 17. september næstkomandi, en fyrirtækið hefur bætt tveimur tónlistaratriðum við í ljósi þeirra gagnrýni sem þeir fengu fyrir kynjahlutfall flytjenda.
Á plakatinu má sjá samansafn af tónlistarmönnum sem koma fram á viðburðinum, en mikil umræða var um það á samfélagsmiðlinum Twitter um það að á viðburðinum væru eingöngu karlkyns tónlistarmenn.
Björgvin Þór Rúnarsson, eigandi Nordic Live Event, segir í samtali við mbl.is að staðið hafi til að kynna leynigest tónleikanna, Röggu Gísla úr hljómsveitinni Grýlunum, eftir að miðasala hófst þar sem hún væri eina tónlistarkonan.
Hljómsveitunum Vicky og SÐSKPR var bætt við viðburðinn fljótlega eftir að umræðan hófst til að bæta kynjahlutfallið.
Björgvin benti á uppfærslu á síðu Vicky í dag þar sem sveitin m.a. gagnrýnir umræðuna og segir aðgerðir mikilvægari: „Það er auðveldara að breyta heiminum þegar við erum öll í sama liði og okkar framlag í þetta skiptið er sýnileikinn sem kallað er eftir.“
Björgvin segir það miður staðreynd að tónlistarsenan í kringum rokktónlist hér á landi standi að stórum hluta saman af karlkyns tónlistarmönnum og hljómsveitum, en hann vill snúa umræðunni að því að fagna þessum tónleikum sem halda uppi rokki hér á landi.