Raunveruleikastjarnan Christine Quinn er oft miðpunktur athyglinnar í raunveruleikaþáttunum Selling Sunset. Quinn segir að það sé af því hún er sú eina sem sé að vinna vinnuna sína í þáttunum, að búa til drama og gott sjónvarp.
„Mér líður eins og ég sé sú eina sem skildi verkefnið sem okkur var gefið. Ég var sú eina sem sagði: „Hey þetta er sýning, og ég ætla að gefa heiminum almennilega sýningu.“,“ sagði Quinn í viðtali við New York Times sem birtist í síðustu viku.
Quinn hitti blaðamann NYT á Caviar Russe veitingastaðnum í New York en var nýkomin frá París í Frakklandi þar sem hún var að kynna bók sína How to Be a Boss B*tch.
„Ég er búin að vera eins og hvirfilvindur. Ég veit ekki í hvaða borg ég er, hvaða ríki eða hvaða tímabelti. Hef ekki hugmynd,“ sagði Quinn um ferðalögin en hún var á leið til Dallas og Los Angeles áður en hún héldi aftur til New York.