Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja af Sussex fóru út að borða með vinum á mánudagskvöldið í New York borg. Hjónin, sem vanalega forðast blaðaljósmyndara og sviðsljósið, brostu til ljósmyndara þegar þau gengu út af ítalska veitingastaðnum Locanda Verde á Manhattan.
Fyrr um daginn höfðu þau verið í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í borginni þar sem Harry flutti ræðu í tilefni af Nelson Mandela deginum sem fagnað var vestanhafs hinn 18. júlí.
Þar voru þau hjónin einnig mynduð í bak og fyrir en þetta var í fyrsta skipti sem hjónin sjást opinberlega síðan í byrjun júní á valdaafmæli drottningarinnar.
Í hádeginu á mánudag snæddi Meghan einnig með bandaríska blaðamanninum Gloriu Steinem og náðust myndir af þeim ganga hönd í hönd.