Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason hefur endurbirt 39 þætti úr hlaðvarpi sínu, Podcast með Sölva, á Spotify núna í júlí. Sölvi tók þá niður í fyrra eftir að tvær konur stigu fram og sökuðu hann um ofbeldi.
Upphaf málsins má þó rekja til viðtals sem Sölvi tók á umræddu hlaðvarpi þar sem viðmælandinn var hann sjálfur ásamt lögmanni sínum. Í viðtalinu bar hann af sér sakir um að hafa beitt konur ofbeldi.
Viðtalið vakti mikla athygli og fékk Sölvi mikinn stuðning frá meðbræðrum sínum, einkum frá Sigmari Vilhjálmssyni athafnamanni, sem setti inn á Instagram upptöku af sjálfum sér, honum til stuðnings, þar sem hann spurði: Hvað er að okkur?
Þá var hann einnig harðlega gagnrýndur fyrir að hafa tekið viðtal við sjálfan sig ef svo má segja.
Málið hratt af stað annarri #metoo-bylgju hér á landi þar sem frásagnir brotaþola kynferðislegs áreitis og ofbeldis streymdu inn á samfélagsmiðilinn Twitter og víðar. Síðar meir lagðist Sölvi inn á geðdeild og hefur hann verið lítið í sviðsljósinu undanfarin misseri frá því að framangreind atvik áttu sér stað. Þar til núna.