Eurovision söngvakeppnin mun fara fram í Bretland á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) í dag. Bretland mun halda keppnina fyrir Úkraínu sem vann keppnina í ár.
Ástæðan er innrás Rússlands í Úkraínu en EBU mat það svo að ekki væri hægt að tryggja öryggi á keppninni ef hún yrði haldin þar. Ákvörðunina tók EBU ásamt ríkissjónvarpi Úkraínu.
„Eurovision söngvakeppnin verður ekki í Úkraínu, en hún verður til stuðnings Úkraínu. Við erum þakklát fyrir þá samstöðu sem BBC sýnir okkur. Ég er viss um að saman munum við geta haldið heiðri Úkraínu á lofti í keppninni og sameinað Evrópu með okkar sameiginlegu gildum um frið, stuðning og fjölbreytileikann,“ sagði Mikóla Tsjernótitskí stjórnarformaður úkraínska ríkissjónvarpsins UA:PBC.
Bretland lenti í öðru sæti í keppninni í ár og fær því að halda keppni næsta árs. Breska ríkisútvarpið, BBC, mun því halda utan um keppnina.
Ekki hefur verið ákveðið hvaða borg í Bretlandi mun halda keppnina en það ferli hefst í þessari viku. Þó Úkraína muni ekki halda keppnina fær landið sjálfkrafa að taka þátt í úrslitakvöldinu.
„Við erum þakklát að BBC hafi samþykkt að halda Eurovision söngvakeppnina í Bretlandi árið 2023,“ er haft eftir Martin Österdal framkvæmdastjóra Eurovision en BBC hefur haldið utan um keppnina fjórum sinnum áður.