„Ekkert til að grínast með“

Íris Róbertsdóttir segir mikilvægt að tala um ofbeldi og forvarnarstarf …
Íris Róbertsdóttir segir mikilvægt að tala um ofbeldi og forvarnarstarf gegn ofbeldi allan ársins hring. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir mikilvægt að rætt sé um ofbeldi og forvarnarstarf gegn ofbeldi allan ársins hring, ekki bara í kringum verslunarmannahelgina eða í tengslum við Þjóðhátíð í Eyjum.

Hún segist ekki sjá neitt fyndið við ummæli Ásgeirs Guðmundssonar, stjórnarmanns í Samtökum reykvískra skemmtistaða, um að betra sé að vera í Reykjavík þegar öll fíflin eru farin til Eyja.

Ummælin lét Ásgeir falla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en hann er líka einn af skipuleggjendum Innipúkans í Reykjavík.

„Mér finnst bara það skrítið að við tökum nánast bara þessa umræðu, sem samfélag, í kringum verslunarmannahelgina og þar af leiðandi Þjóðhátíð. Við eigum að taka þessa umræðu um ofbeldi og afleiðingar þess allan ársins hring. Það að kalla fólk sem ætlar að ferðast á útihátíð fífl, finnst mér afar sérstakt, við eigum bara að vera komin lengra. Ég veit að þetta á að vera fyndið hjá honum, en mér finnst þetta ekki til að grínast með,“ segir Íris í samtali við mbl.is

Eins og alltaf verður mikið eftirlit á Þjóðhátíð í ár og segir Íris enga útihátíð á Íslandi vera með fleiri eftirlitsmyndavélar, öflugri gæslu eða betri umgjörð. „Þetta skiptir máli. ÍBV vill gera þetta vel og gera allt sem í hægt er til þess að tryggja að allir geti skapað góðar minningar,“ segir Íris.

Borið merki Bleika fílsins síðustu ár

Greint var frá því í vikunni að forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn hafi ákveðið að láta staðar numið eftir tíu ár í Dalnum. Í stað þess kemur forvarnarstarf lögreglunnar, Verum vakandi, og segist Íris vera ánægð með það en mun sakna Bleika Fílsins enda hafa þær sem eru í forsvari fyrir hópinn unnið mikið og óeingjarnt starf og verið miklir brautryðjendur í baráttunni.

Hún hafi borið fyrirliðaband Bleika fílsins undanfarin ár og allt hennar fólk, börn og fullorðnir, og þannig tekið afstöðu gegn ofbeldi.

„Þetta á að vera svona alls staðar. Við eigum að vera öll á þeim stað að við stöndum saman gegn ofbeldi. Alltaf, ekki bara um verslunarmannahelgina,“ segir Íris.

Íris kveðst vera orðin mjög spennt fyrir Þjóðhátíð. „Þjóðhátíðin í Eyjum er einstök upplifun enda elsta menningarhátíð landsins og hvet ég þá sem ekki hafa upplifað hátíðina að mæta í Dalinn,“ segir Íris.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar