Samfélagsmiðladrottningar á borð við Kim Kardashian og Kylie Jenner hafa gagnrýnt samfélagsmiðilinn Instagram fyrir breytingarnar sem orðið hafa á honum og biðlað til þeirra sem miðlinum stjórna að „hætta að herma eftir TikTok“ eins og CNBC hefur greint frá.
Eftir að systurnar settu fram gagnrýnina deildi forstjóri Instagram, Adam Mosseri, myndbandi á Twitter þar sem hann reyndi að útskýra nýju uppfærsluna og ástæður fyrir breytingunum.
Notendur kvarta undan því að efni frá vinum og vandamönnum týnist í hafsjó af efni en auk þess birtast myndbönd nú ofar í veitunni heldur en myndir.
Algóritminn leikur með þessu stærra hlutverk, líkt og á samfélagsmiðlinum TikTok, þar sem einungis myndbönd sjást og sjaldnast frá þeim sem notendur fylgja.
„Ég hef verið að heyra allskyns athugasemdir frá ykkur öllum,“ segir Mosseri í myndbandi sem hann birti á Twitter í dag.
„Ég heyri marga kvarta undan því að við erum að skipta úr myndum yfir í myndbönd. Við munum halda áfram að styðja við myndir. [...] Ég trúi að myndbönd verði algengari og algengari á Instagram með tímanum,“ segir hann.
Ef ekkert yrði að gert myndu myndbönd samt sem áður öðlast stærra hlutverk á miðlinum þar sem fleiri deili þeim og horfi á þau.
„Við þurfum að aðlagast þeirri breytingu,“ segir hann en bætir því við að á sama tíma styðji Instagram við myndir.
Mosseri segir að fólk sem vill ekki sjá frá efni sem Instagram „mælir með“ eða frá þeim sem það fylgir ekki, geti það slökkt á stillingunni í allt að mánuð.
Útlit er fyrir að breytingarnar séu komnar til að vera, af orðum Mosseri að dæma.
„Hugmyndin er að hjálpa notandanum að sjá nýtt og áhugavert efni á Instagram sem hann hafði kannski ekki hugmynd um,“ segir hann. Sjái fólk efni sem það hefur ekki áhuga á standi Instagram sig illa.
Þá ætlar Instagram að gera sitt besta til þess að styðja við minni áhrifavalda og hjálpa þeim að stækka sinn fylgjendahóp en samfélagsmiðilinn TikTok hefur einmitt þann háttinn á.
„Við munum reyna að halda áfram að setja efni vina ykkar efst eins og við getum en heimurinn er einnig að breytast og við verðum að aðlagast [...], segir hann í lokin.