Skoska söngkonan Lulu hvetur breska ríkisútvarpið, BBC, til þess að halda Eurovision söngvakeppnina í Glasgow í Skotlandi á næsta ári. Lulu sjálf vann Eurovision fyrir hönd Bretlands árið 1969 og segir Glasgow sannkallaða tónlistarborg. BBC greinir frá.
Greint var frá því í gær að BBC hefði tekið að sér að halda Eurovision á næsta ári. Úkraína vann keppnina en vegna stríðsins sem geisar þar í landi ákvað Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, að kanna aðra möguleika. Bretland hafnaði í 2. sæti í keppninni sem fór fram í Tórínó.
Lulu var til viðtals í fréttatíma BBC Two í gærkvöldi. „Það verður að vera Glasgow, því ég er þaðan. Þau eru svo klók í stjórnmálum, þau eru magnaðir gestgjafar og þetta er sannkölluð tónlistarborg. Ég held það gæti bara orðið algjörlega stórkostlegt, og ég myndi mæta. Ég get bara ekki beðið,“ sagði söngkonan.
Þetta verður í níunda skipti sem keppnin fer fram á Bretlandseyjum, en hún hefur einu sinni áður verið haldin í Skotlandi, þá í Edinborg árið 1972.
Eurovisionfarinn Lulu vann keppnina árið 1969 með laginu Boom Bang-a-Bang en það ár fór keppnin fram í Madríd á Spáni.
„Úkraína á þetta partí samt, okkur er bara boðið að halda það heima hjá okkur. Ég veit að það skipti Kalush og Úkraínu miklu máli að geta haldið keppnina heima. Og ég er ekki sú eina sem er miður mín yfir því að það er ekki hægt að halda keppnina þar núna. En mig langar til að segja öllum sem eru að horfa frá Úkraínu, við kunnum að halda partí hérna í Bretlandi,“ sagði Lulu að lokum.
Í tilkynningu EBU í gær kom fram að þó keppnin færi fram í Bretlandi og BBC myndi sjá um skipulag og útsendingu yrði keppnin með úkraínskum blæ.