Leikarinn Vin Diesel fagnaði 55 ára afmæli sínu í Róm á Ítalíu hinn 18. júlí síðastliðinn. Hann eyddi afmælisdeginum þó ekki einsamall og hélt upp á áfangann í óvæntum félagsskap.
Diesel og leikkonan Helen Mirren sáust saman á veitingastaðnum fræga, Antica Pesa. Þar fengu þau til liðs við sig einn af framleiðendum kvikmyndarinnar Fast X en þau eru nú við tökur á kvikmyndinni.
Heimildarmaður Page Six segir Diesel hafa verið klæddan í blazer-jakka sem hann fór svo úr, en þá var hann að sjálfsögðu í hvítum hlýrabol sem má segja að sé hans einkennisfatnaður.
Leikararnir sötruðu rauðvín og Prosecco og virtust njóta sín í botn í hitanum, en samkvæmt heimildarmanninum hefur vinskapur þeirra styrkst undanfarnar vikur á meðan tökur standa yfir.