Instagram ætlar að hverfa frá breytingum á samfélagsmiðlinum eftir harða gagnrýni frá stærstu áhrifavöldum heims. Raunveruleikastjörnurnar Kim Kardashian og Kylie Jenner voru á meðal þeirra stjarna sem stigu fram fyrr í vikunni og gagnrýndu Instagram fyrir að vera farið að líkjast samkeppnissamfélagsmiðlinum TikTok um of.
Á meðal þess sem fólst í gagnrýni systranna var að algóritminn sýndi notendum fleiri færslur frá reikningum sem það fylgist ekki með og færri færslur frá fólki sem það er að fylgja. Þá hefur Instagram einnig verið að prófa að láta færslur fylla út í skjáinn líkt og er á TikTok.
„Við ætlum að taka okkur hlé á því að prófa að láta færslur fylla út í skjáinn á meðan við skoðum aðra möguleika,“ sagði talsmaður Meta, móðurfyrirtækis Instagram og Facebook. Hann sagði enn fremur að einnig yrði fækkað þeim færslum sem notendur sæju frá fólki sem það er ekki að fylgja.
Enn fremur sagði talsmaðurinn að öllum breytingum þyrfti að venjast. „En við trúum því hins vegar heilshugar aðInstagram þarf að þróast áfram og breytast með heiminum, við viljum taka okkur tíma að gera þetta rétt,“ sagði talsmaðurinn.
Forstjóri Instagram, Adam Mosseri, greinti fyrst örstutt frá breytingum á fimmtudag og sagði þá að það væri eðlilegt að fyrirtækið gerði mistök. „Ég er ánægður að við tókum áhættuna. Ef okkur mistekst ekki stöku sinnum, erum við ekki að hugsa nógu stórt og erum ekki nógu hugrökk,“ sagði hann og bætti við að nú væri tækifæri til að stíga til baka og hugsa málið upp á nýtt.
Systurnar Kardashian og Jenner eru á meðal vinsælustu notenda á Instagram. Kardashian er með 326 millljónir fylgjenda en Jenner 361 milljón. Þær kölluðu eftir því að Instagram yrði gert að Instagram aftur. Instagram hefur í gegnum árin beint athyglinni mest að myndum. Með tilkomu TikTok og vinsælda miðilsins kynnti Instagram svokölluð Reels, sem eru örmyndbönd líkt og á TikTok.