Tíu ár eru liðin síðan Ásgeir Trausti gaf út sín fyrstu lög á vormánuðum 2012 og varð fljótlega vinsælasti tónlistarmaður landsins. Platan hans Dýrð í dauðaþögn kom út sama ár og sló öll íslensk sölumet.
Platan hefur selst í yfir 40.000 eintökum og setið samtals 415 vikur á Tónlistanum sem er yfirlit yfir mest seldu plötur landsins, sem er einstakur árangur. Þannig hefur þessi frumraun Ásgeirs, sem var tvítugur þegar platan kom út, skipað sér sess með ekki ómerkari plötum en Gling Gló og barnaplötunum sígildu Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi og Einu sinni var, sem ein af 5 mest seldu plötu Íslandssögunnar.
Af þessu tilefni afhendi Alda Music Ásgeiri fjórfalda platínuplötu.
Til að halda upp á þessi tímamót mun Ásgeir vera með tónleika í Hörpu þann 27. ágúst með stórhljómsveit og strengjum. Tónleikarnir bera yfirskriftina Dýrð í dauðaþögn – 10 ára afmælistónleikar, þar sem platan verður flutt í heild sinni í bland við frumflutning á glænýju efni
Fyrr á árinu var platan endurútgefin á tvöföldum vínyl og á geisladiski þar sem fjórum aukalögum var bætt á plötuna.