Fyrsta stóra myndlistasýning Péturs Geirs Magnússonar myndlistamanns, Annarskonar Annaspann, opnar í dag kl. 14 í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku. Um er að ræða konseptsýningu sem samanstendur af 40 lágmyndum um árstíðirnar fjórar.
Sýningin er afrakstur árslangrar vinnu Péturs, mestmegnis í Stokkhólmi, en þangað flutti hann síðasta haust. Árstíðirnar eru að mestu því innblásnar af þeim sænsku, að sumrinu undanskildu, en þar fær hið íslenska að láta ljós sitt skína með öllum sínum kostum og göllum.
„Hérna ertu kominn í hvössu trjáhríslurnar, sem eru alltaf hérna á fullu á veturna. Þessi heitir Gul viðvörun,“ sagði Pétur um eina af vetrarmyndunum þegar blaðamann bar að garði til að bera verkin augum í vikunni.
Fram að því höfðu logn og hin stóru sænsku tré verið ráðandi í myndunum en Gul viðvörun dró sinn innblástur frá föðurlandinu.
Sýningin hefst í dag kl. 14 og stendur yfir til og með 21. ágúst. Opið verður alla daga frá kl. 14:00 til 20:00.
Pétur, sem útskrifaðist sem grafískur hönnuður úr LHÍ vorið 2020, vann myndirnar með nútíma tækni og hefur varið sumrinu í að koma þeim á lágmyndaform. Lágmyndir eru skúlptúrar á tvívíðum fleti, og er sérkenni þeirra það að ljós og skuggar umbreyta myndefninu eftir því hvernig birtan og ljósið fellur á það.