Rapparinn A$AP Rocky hefur verið ákærður fyrir líkamsárás með skotvopni í tengslum við skotárás í Hollywood í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Rapparanum er gert að sök að hafa miðað hálfsjálfvirku árásarvopni að fyrrum vini sínum í rifrildi í nóvember. Þá er hann sakaður um að hafa skotið tvisvar sinnum í átt að manninum sem hlaut minniháttar áverka.
Hann gæti átt yfir höfði sér níu ára fangelsi verði hann fundinn sekur.
A$AP Rocky er vinsæll tónlistarmaður og hafa tvær plötur eftir hann ratað efst á topplista í Bandaríkjunum. Hann er 33 ára að aldri og er í sambandi með tónlistarkonunni Rihönnu, en þau eignuðust sitt fyrsta barn fyrr á þessu ári.
Rapparinn á að mæta fyrir dómara á morgun, miðvikudag.
George Gascón, saksóknari í Los Angeles, sagði í tilkynningu að það væri alvarlegur glæpur að hleypa af byssu í almannarými og það hefði getað endað illa.
Fyrst var greint frá því að A$AP Rocky tengdist skotárásinni í apríl á þessu ári, þegar hann var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles eftir að hann hafði verið í fríi á Barbados með Rihönnu.
Hann var í gæsluvarðhaldi í þrjár klukkustundir en var sleppt gegn tryggingu. Við húsleit á heimili hans fannst fjöldi skotvopna.