Breski leikarinn Tom Holland segir samfélagsmiðla hafa skaðleg áhrif á andlega heilsu sína og hefur því ákveðið að taka sér hlé frá þeim um tíma til að einbeita sér að geðheilsu sinni.
Leikarinn birti stutt myndskeið á Instagram reikningi sínum á dögunum þar sem hann útskýrir fjarveru sína frá miðlinum, en hann hefur nú eytt bæði Instagram og Twitter úr tækjum sínum. „Ég hef tekið mér frí frá samfélagsmiðlum vegna andlegrar heilsu minnar, en mér þykir Instagram og Twitter vera oförvandi og yfirþyrmandi,“ sagði Holland í myndskeiðinu.
Hann segist taka það nærri sér þegar hann les hluti um sjálfan sig á netinu sem hafi slæm áhrif á hann. „Það eru hræðilegir fordómar gegn geðheilbrigði og ég veit að það að biðja um hjálp og leita okkur hjálpar er ekki eitthvað sem við ættum að skammast okkur fyrir,“ bætti hann við.