Fasteignasalinn og raunveruleikastjarnan Jason Oppenheim er kominn á fast eftir tilfinningaþrungin sambandsslit hans við Chrishell Stause í desember 2021. Sú heppna er fyrirsætan Marie-Lou Nurk og kynntust þau á Mykonos, Grikklandi í sumar.
Nurk er 25 ára gömul og starfar sem fyrirsæta og áhrifavaldur, en 20 ára aldursbil er á milli Nurk og Oppenheim.
Oppenheim hefur verið að gera það gott sem fasteignasali, en hann kemur fram í raunveruleikaþáttunum Selling Sunset sem hafa vakið gríðarlega mikla athygli. Rúmir átta mánuðir eru síðan leiðir Oppenheim og Stause skildu, en hann segir þau þó vera góða vini í dag enda starfa þau saman á fasteignasölu Oppenheim og í raunveruleikaþáttunum vinsælu.