TikTok hefur nú eytt aðgangi Andrew Tate, sem þekktur er fyrir að breiða út kvenhatur og eitraðar hugmyndir um karlmennsku.
Þá hefur námskeið Tate, „Harkaraháskólinn“, verið lagt af en það snerist meðal annars um að miðla fjárhagslegum ráðum til áskrifenda.
Twitter varð fyrst til þess sparka fyrrum „kickboxaranum“ út, árið 2016, þegar hann tísti því að konur ættu að bera ábyrgð á kynferðislegu ofbeldi sem þær kynnu að verða fyrir. Facebook og Instagram fylgdu í kjölfarið á föstudaginn.
Stjarna Tate hefur risið hratt á undanförnum misserum og er hann sérstaklega vinsæll meðal ungra karlmanna.
Í kjölfar vinsældanna hafa þekktir áhrifavaldar lagt orð í belg, þar á meðal Daz Black, sem rekur Youtube-rás sem státar af 8 milljónum fylgjenda og nýtur nokkurra vinsælda meðal ungra karlmanna.
Daz fór yfir sögu Tate, ásakanir um kynferðisofbeldi og eitruð viðhorf. Daginn eftir birtingu myndbandsins eyddi Meta aðgangi Tate á Facebook og Instagram.
Youtube-stjarnan og rapparinn KSI tísti þá í vikunni: „Guði sé lof að Tate hafi verið bannaður,“ og uppskar misjöfn viðbrögð meðal sinna aðdáenda.
Thank God Andrew Tate Got Banned
— ksi (@KSI) August 21, 2022