Fjölmiðlamaðurinn Þórður Helgi Þórðarson, oft kallaður Doddi litli, hefur fundið 43 gamla Tvíhöfða-þætti sem til stendur að gefa út á öllum helstu streymisveitum.
Hann segir í tísti að gamlir „nýir“ þættir Tvíhöfða hafi fundist og að þeir séu „á leiðinni inn“.
Fyrr í mánuðinum tilkynnti Jón Gnarr að Tvíhöfði myndi ekki snúa aftur á Rás 2 í haust. Aðdáendur Jóns og Sigurjóns Kjartanssonar fá þá smá sárabætur í nýfundnum þáttum Þórðar Helga.
„RÚV geymir allt og hefur gert í áratugi. Ég fann einhverja 12-14 þætti frá árinu 2007. Síðan byrjuðu þeir aftur árið 2017,“ segir Þórður Helgi í samtali við mbl.is.
Hann segir að efni Tvíhöfða frá árinu 2018 og nýrra sé nú þegar til á streymisveitum. Þetta sé sennilega í fyrsta skipti sem efni frá árunum 2007 og 2017 sé að koma inn á streymisveitur.
„Við vorum ekkert farin að setja allt þetta efni okkar á streymisveitur fyrr en árið 2018.“
„Svo er hellingur til í viðbót. Þeir voru í nokkra mánuði á Kjarnanum og þeir voru hjá Kananum áður en hann varð K100. Svo voru þeir hjá X-inu, Radio X, Radio og Skonrokki.“
Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS barnaþorpa á Íslandi og fyrrverandi dagskrárgerðarmaður, svarar tísti Dodda og segir að það eigi að vera til kassi af mini-diskum og upptökum af Tvíhöfða frá árinu 1999.
„Ég held það sé mikið gull í kassanum sem Hansi talar um. Hann segir að Sigurjón [Kjartansson] sé með hann,“ segir Þórður um tístið.
Þórður Helgi bætir við að RÚV geti bara gefið út efni Tvíhöfða sem hafi komið út á RÚV.
Hann segir að hann sé nú búinn að skila sínu en til þess að verði af útgáfu efnis Tvíhöfða frá öðrum miðlum verði hlustendur Tvíhöfða að þrýsta á útgáfu þess.
„Hlustendur Tvíhöfða eru frekustu hlustendur í heimi. Ég hef fengið hótanir þegar ég hef verið erlendis í sumarfríi að ég skuli koma og redda því ef þáttur er ekki kominn inn á streymisveiturnar,“ segir Doddi.
Þegar Jón Gnarr tilkynnti að Tvíhöfði myndi ekki vera á dagskrá í haust bað hann aðdáendur þáttanna að láta Dodda í friði. „Hann er sakleysingi sem eins og aðrar barnssálir í landinu hélt að haustfuglinn kæmi með kólnandi veðri,“ sagði Jón.
Þórður Helgi segir meginástæðuna fyrir því að hann sé að setja inn allt efni með Tvíhöfða sem hann hafi fundið vera til þess að geta sagt: „Hér hef ég skilað af mér Tvíhöfða og ég get ekki svarað neinni einustu spurningu til viðbótar. Ég er ekki lengur í hljómsveitinni“.
„Það er um að gera að setja pressu á 365 eða hvað þetta heitir því þar á að vera til endalaust af gulli. Þeir voru þarna á hverjum degi í tíu ár eða eitthvað,“ bætir Doddi litli við.