Vildi finna fyrir þyngd ljónsins

Baltasar á frumsýningu Beast í MoMA í New York 8. …
Baltasar á frumsýningu Beast í MoMA í New York 8. ágúst. Með honum eru leikkonurnar Iyana Halley og Leah Jeffries og leikararnir Will Packer, Idris Elba og Sharlto Copley. AFP

„Vonandi eru allir komnir með popp og kók. Þetta er svona popp og kók-mynd,“ sagði kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur glettinn þegar hann kynnti nýjustu kvikmynd sína, Beast, fyrir boðsgestum á viðhafnarforsýningu í Laugarásbíói fyrir rúmri viku. Og það voru orð að sönnu. Gríðaröflugt hljóðkerfi stóra salarins, AXL, gaf manni reglulega þétt högg í bringuna þar sem fylgst var með baráttu manna við gríðaröflugt ljón upp á líf og dauða.

Ljón þetta er skepnan sem titillinn vísar til og þarf sjálfur Idris Elba, enska kvikmyndastjarnan og kyntáknið, að taka á honum stóra sínum í þeim átökum. Leikur Elba lækni nokkurn bandarískan, Nate Daniels, sem heldur í ævintýraferð með dætur sínar til Suður-Afríku. Fyrrum eiginkona læknisins og móðir stúlknanna er látin og reynir Nate að styrkja sambandið við dæturnar með því að heimsækja á ný staðinn sem móðir þeirra ólst upp á og þau kynntust. Þau hitta fyrir gamlan fjölskylduvin, Martin, sem reynir hvað hann getur að vernda ljón á svæðinu fyrir veiðiþjófum. Ekki líður á löngu þar til feðginin og Martin komast í kast við vígalegt ljón sem drepið hefur fjölda manns og hefst þá taugatrekkjandi barátta upp á líf og dauða.

Baltasar útskýrir fyrir tökuliði hvernig hann vill hafa hlutina.
Baltasar útskýrir fyrir tökuliði hvernig hann vill hafa hlutina.

Náttúrulegt

Baltasar slær á þráðinn til blaðamanns nokkrum dögum eftir sýningu og er þá skilgreining hans á myndinni, þ.e. að hún sé „popp og kók“-mynd, rifjuð upp. Baltasar stendur við þau orð sín og segir fólk líka þurfa að fá að skemmta sér og myndin kjörið tækifæri til þess.

Blaðamaður nefnir þá tilfinningu sína að Beast sé spennumynd af gamla skólanum, 90 mínútur að lengd og frekar jarðbundin. „Já, einmitt, hvernig hún er skotin er kannski meira nútímalegt, löng skot og flókin voru menn kannski ekki að gera áður en ljónið er ekki súperhetja eða eitthvað sem kemur utan úr geimnum. Það er maður búinn að sjá svolítið mikið af, allt að stækka og verða eins og vörubílar að stærð en ég lagði áherslu á að þetta væri raunverulegt, eins stórt og það gerist í náttúrunni,“ svarar Baltasar og á þar við skepnuna, ljónið.

–Það sem gerir myndina spennandi líka er að þetta virkar raunverulegt. Það er erfiðara að lifa sig inn í geimveruárás …
„Já, maður fær ekki þessa djúpu grunnspennu því spenna byggir svo mikið á hræðslu, einhverju sem þú upplifir,“ segir Baltasar og að oft vanti líka þyngdarafl í CGI-vinnuna, þ.e. hinn tölvuteiknaða hluta kvikmynda. „Ég lagði rosalega mikla áherslu á að þú fyndir fyrir réttri þyngd ljónsins, aflinu í því og að þyngdin væri rétt.“

Óskarsverðlaunahafi í hljóðinu

–Fólk er kannski ekki mikið að spá í hljóðhönnun myndarinnar en hún vakti athygli mína. Það hlýtur að hafa verið legið yfir henni, ekki satt?

„Jú, feykilega mikið og þar er sami hönnuður og gerði Gravity og hlaut Óskarinn fyrir, Glenn Freemantle. Hann gerði með mér Everest líka. Þetta er algjör snilli, við lágum mjög mikið yfir þessu,“ segir Baltasar og nefnir sem dæmi að menn hafi verið sendir til Afríku til að taka upp hljóðin í ljónum, næturhljóðin í skóginum og fleira. Baltasar segir hljóðin í ljónum berast marga kílómetra og að slík hljóð hafi hann heyrt þegar hann dvaldi í Afríku, nærri Kruger þjóðgarðinum.

Greinilegt er líka á myndinni að hún er tekin upp í Afríku en ekki myndveri með viðbættu landslagi. Baltasar segir reyndar hafa komið til tals að búa sögusviðið til með þeim hætti og þá einkum vegna Covid-faraldursins en það hafi hann alls ekki viljað. „Ég sagði að ef ég ætti að gera þessa mynd þá myndi ég gera hana í Afríku. Mig langaði líka bara að fara til Afríku, hef verið með Afríku „fetish“ frá því ég var barn að klippa út myndir af ljónum og setja í plastmöppu,“ segir Baltasar kíminn.

Þegar hann var ungur drengur hafi hann langað að bjarga ljónunum í Afríku og seinna að hjálpa dýrum með því að verða dýralæknir. „Svo endaði ég bara í leikaranum!“ segir Baltasar og hlær.

Idris Elba með Sharlto Copley og Iyana Halley í einu …
Idris Elba með Sharlto Copley og Iyana Halley í einu af atriðum Beast.

Fastur inni í bíl með persónum

–Þú afsakar hvað ég er fastur í tæknilegum hliðum myndarinnar en ég tók líka eftir því hversu vandað er til lýsingar í myndinni, sérstaklega í atriðum sem gerast að næturlagi. Var það flókið verk?

„Já, það var mjög flókið með þessum tökustíl sem þessi tökumaður hefur aldrei gert áður,“ svarar Baltasar. Tökurnar hafi margar hverjar verið mjög langar, allt upp í átta mínútur og aldrei klippt. Eitt atriði er sérlega flókið hvað þetta varðar, tekið í 360 gráður, þ.e. heilan hring, að næturlagi og enginn ljósgjafi. „Það eru engir ljósastaurar, ekkert sem getur afsakað ljós þannig að þetta var mikill höfuðverkur, þessar næturtökur,“ útskýrir Baltasar.

Tökustjórinn er, líkt og hljóðhönnuðurinn, Óskarsverðlaunahafi og heitir Philippe Rousselot. Hefur hann að auki hlotið Bafta-verðlaun og César-verðlaunin í þrígang. Óskarinn hlaut hann fyrir A River Runs Through It. Hinar löngu tökur voru þó ekki hans hugmynd heldur Baltasars og segir hann Rousselot ekki hafa litist á blikuna í fyrstu.

Að auki er mikið um nærmyndir og handheldar tökur í Beast sem magna upp spennu og tilfinningu áhorfandans fyrir því að hann sé á staðnum. Til að mynda er tökumaðurinn inni í jeppa með aðalpersónum myndarinnar þegar ljónið gerir árás í fyrsta sinn í myndinni sem fær hár áhorfenda til að rísa. „Það sem ég er að reyna að gera með þessu er að búa til þessa „point of view perspective“ tilfinningu, að þú sért með þeim inni í þessu þegar þau eru föst í bílnum. Ég skýt eiginlega aldrei inn í bílinn að utan þannig að þú upplifir að þú sért fastur inni í bílnum með þeim og sjáir ljónið frá þeirra sjónarhorni,“ útskýrir Baltasar. Fyrir vikið verður óttinn meiri í huga áhorfandans.

Getur ekki sakað að vera leikari

Tvær ungar konur, Iyana Halley sem er í dag 26 ára og Leah Jeffries sem er 12 ára, leika dætur læknisins í myndinni og mæðir mikið á þeim, líkt og Elba og Sharlot Copley sem leikur fjölskylduvininn Martin. Þurfa þær að túlka með trúverðugum hætti að vera í lífshættu og verjast árásum snaróðs ljóns. Baltasar lofar frammistöðu þeirra Halley og Jeffries og segir þær hafa landað hlutverkunum eftir langar og strangar prufur á miklum fjölda ungra kvenna.

„Þær stóðu sig ógeðslega vel og frábært að vinna með þeim. Svo var Idris mjög klókur líka og þá sérstaklega með yngri stelpuna, fór að grínast mikið við hana og reyna að láta henni líða eins og hann væri pabbi hennar,“ segir Baltasar. Þá hafi langar tökur líka auðveldað leikkonunum að lifa sig inn í aðstæður.

–Nú eru kannski ekki margir leikstjórar leikaramenntaðir eins og þú, það hlýtur að koma sér vel og þá sérstaklega þegar eitthvað svona snúið er á ferðinni líkt og í þessari mynd?

„Algjörlega, eins stundum er sagt þá gerir það þig ekki að leikstjóra að vera leikari en að vera leikstjóri sem hefur reynslu af því að vera leikari getur ekkert nema hjálpað þér,“ svarar Baltasar. „Og af því ég hef líka unnið í leikhúsi þá mótívera ég leikarana. Ég er ekki að láta þá labba eftir einhverjum strikum í stúdíói og segja þeim að gera þetta eða hitt, það gerir ekkert fyrir mig heldur vil ég mótívera, spá í aðstæður og af hverju einhver segir þetta eða hitt.“

Baltasar við tökur í Suður-Afríku.
Baltasar við tökur í Suður-Afríku.

Alinn upp í ljónagarði

Baltasar er spurður að því hver hafi verið mesta áskorunin við myndina og hann svarar, án umhugsunar, að það hafi verið hin löngu skot og að skapa ljónið. „Ég er búinn að vera í ár að vinna í þessu ljóni,“ segir Baltasar en um CGI-vinnuna sá fyrirtækið Framestore á Englandi. Yfirmaður þeirrar vinnu var einmitt staddur á viðhafnarforsýningunni í Laugarásbíói.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig ljónið leit út í tökum, var þar maður á ferð í grænum galla? „Hann var í gráum galla með ljónshaus,“ svarar Baltasar og brosir í gegnum símann. Maður þessi er áhættuleikari, stórvaxinn og alinn upp í ljónagarði í Afríku. „Hann hafði því tilfinningu fyrir því hvernig ljón haga sér og bregðast við og það var mjög gott að nýta hann. Auðvitað er þetta mjög kjánalegt þegar þú sérð þetta,“ segir Baltasar kíminn.

–Var ekkert erfitt að halda andliti við þessar aðstæður, að vera alvarlegur?

„Það venst náttúrlega, auðvitað er þetta „silly“ til að byrja með en svo venst þetta og verður bara vinna. Svo þarf að gera þetta án hans líka og þetta er ógeðslega flókið ferli,“ svarar Baltasar og bæti við að hin löngu skot hafi gert flókið ferli enn flóknara. Þá skipti líka öllu að tímasetningar séu réttar því ekki sé hægt að breyta viðbrögðum leikara eftir á.

Frumsýningar meira stress

En hvernig leið leikstjóranum í öllu þessu havaríi í hitanum í Suður-Afríku? Var hann ekkert að bugast á tímabili? „Nei, ég elska þetta. Mér fannst geggjað að vera þarna og auðmjúkur að því leyti, mér finnst frábært að fá að vinna á svona ævintýralegum stöðum. Svo gerir maður bara sitt besta. Þegar ég er að gera mynd er ég aldrei stressaður en kannski þegar ég er að frumsýna, það er allt öðruvísi. Þá er svolítið eins og maður sé farþegi í bílslysi, getur ekkert gert,“ svarar Baltasar kíminn.

Næst á dagskrá hjá leikstjóranum eru tökur á kvikmynd eftir bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Þær hefjast í október og fara fram í Japan, á Englandi og Íslandi. Leikstjórinn segir ekki búið að ganga frá málum hvað varðar leikara en segist mjög spenntur fyrir verkefninu. Myndin sé afar ólík þeirri síðustu, sem hér hefur verið til umræðu en þó fjalli báðar um fólk sem reynir að lifa af, hvort heldur er árás ljóns eða sjálfa ástina.

Hér má sjá stiklu Beast:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup