Tvær konur hafa stigið fram og sakað fyrrverandi hnefaleikakappann George Foreman um að hafa brotið á sér kynferðislega á áttunda áratug síðustu aldar. Konurnar voru unglingar þegar þær segja að brotin hafi átt sér stað. New York Times greinir frá.
Konurnar koma ekki fram undir sínum raunverulegu nöfnum en notast við nöfnin Gwen H. og Denise S. Báðar hittu þær Foreman í gegnum feður sína þegar þær voru börn. Faðir annarrar var einnig í hnefaleikum og æfði með honum en hinn var umboðsmaður og ráðgjafi Foremans til margra ára.
Konurnar segja Foreman hafa litið hýru auga til þeirra í mörg ár áður en hann neyddi þær til að stunda kynlíf með honum. Segja þær hann hafa neytt þær til að stunda kynlíf með honum nokkrum sinnum, í nokkrum borgum, þar á meðal í San Francisco og Los Angeles.
Báðar eru þær á sjötugsaldri í dag og lögðu fram kærurnar í Los Angeles sýslu.
Önnur kvennanna segir að Foreman hafi sagt við hana, áður en hann neyddi hana til að stunda kynlíf með honum: „Þú vilt ekki að pabbi missi vinnuna, er það?“.
Foreman, sem seinna var kenndur við heilsugrill með sama nafni, hefur neitað ásökunum og sagt konurnar hafa reynt að hafa af honum peninga.
„Undanfarna sex mánuði, hafa tvær konur reynt að kúga milljónir króna út úr mér og fjölskyldu minni. Ásakanir þeirra um að ég hafi misnotað þær kynferðislega fyrir meira en 45 árum eiga ekki við rök að styðjast. Ég neita þessum ásökunum alfarið,“ sagði Foreman í tilkynningu.