Breski leikarinn Andrew Garfield stundaði föstur og neitaði sér um kynlíf í nokkra mánuði á meðan hann var að undirbúa sig fyrir hlutverk prests í Jesúítareglunni í kvikmyndinni Silence sem kom út árið 2016.
„Maður endar á ansi djúpum stað. Svona ferli breytir manni. Ég stundaði ekki kynlíf í sex mánuði og ég fastaði mikið. Það var ansi klikkuð upplifun að neita mér um kynlíf og mat,“ sagði leikarinn í hlaðvarpinu WTF with Marc Maron.
Garfield var gestur Maron vegna nýrra þátta, Under the Banner of Heaven, þar sem hann fer með hlutverk rannsóknarlögreglu sem rannsakar morð innan mormónasamfélagsins.