Bandaríski tónlistarmaðurinn Thurston Moore er væntanlegur hingað til lands með hljómsveit sinni og heldur tónleika í Hljómahöll 9. október næstkomandi.
Thurston Moore stofnaði hljómsveitina Sonic Youth árið 1981 ásamt bassaleikaranum Kim Gordon, en Sonic Youth varð ein áhrifamesta rokkhljómsveit síðastliðinna 40 ára og ruddi brautina fyrir hljómsveitir eins og Nirvana og My Bloody Valentine. Hljómsveitin kom hingað til lands árið 2005 og lék á Nasa.
Thurston Moore hóf sólóferil meðfram starfi sínu í Sonic Youth og þegar hljómsveitin lagði upp laupana 2011 hélt hann áfram að gefa út plötur og leika á tónleikum. Alls eru sólóplöturnar orðnar sjö auk þess sem hann hefur gefið út fjölda hljómplatna sem meðlimur ýmissa hljómsveita og verkefna.
Í hljómsveit Thurstons Moores sem kemur með honum hingað eru ásamt honum bassaleikarinn Debbie Googe, sem er jafnframt bassaleikari My Bloody Valentine, gítarleikarinn James Sedwards, sem er þekktastur fyrir að leiða hljómsveitina Nøught, og fyrrverandi samstarfsmaður Moores úr Sonic Youth, Steve Shelley, sem spilar á trommur.
Miðasala á tónleikana hefst fimmtudaginn 1. september næstkomandi á tix.is. Sætaferðir verða frá Reykjavík á tónleikana, sem haldnir eru í tónleikasalnum Stapa í Hljómahöll í Reykjanesbæ.