Martin Clunes, leikari þáttanna Doc Martin, segir að það hafi mikið mætt á eiginkonu sinni, Philippu Braithwaite, við gerð þáttanna. Braithwaite er bæði höfundur og framleiðandi þáttanna.
„Það að þurfa í átján ár að búa til söguþráð fyrir persónu sem líkar ekki vel við neinn og engum líkar vel við er mjög erfitt,“ sagði Clunes í viðtali við This Morning en nú styttist í að síðasta sería þáttanna fari í loftið.
„Þetta er góður tími til að hætta. Aumingja Philippa, hún hefur unnið að hverju einasta handriti, 84 talsins, og ekkert þeirra var auðvelt í skrifum því aðalpersónan er einhver sem líkar ekki vel við neinn. Þetta hefur ekki verið auðvelt, þetta hefur verið erfitt. Við viljum ekki endurtaka okkur. Það eru eflaust margir þarna sem finnst þættirnir alltaf eins,“ segir Clunes en þættirnir hafa verið gríðarlega vinsælir síðustu ár en þeir segja frá lækni sem dvelur í breska sjávarplássinu Portwenn.