Ólíkt gosinu í Merardölum, sem er að kólna, eru enn að bætast við sjóðheitar myndir á RIFF, Alþjóðlega kvikmyndahátíðar i Reykjavík, og dagskráin er farin að taka á sig mynd. Hátíðin fer fram í Háskólabíói við Hagatorg í ár, dagana 29. september - 9. október.
Fjölmargar frumsýningar og verðlaunamyndir verða sýndar og úrvalið gefur góðan þverskurð af því besta sem kvikmyndaiðnaðurinn hefur framleitt síðustu mánuðina. Myndir sem sýndar eru á RIFF eru einstakt tækifæri til að kynna sér það nýjasta í evrópskri og alþjóðlegri kvikmyndagerð en fæstar myndanna verða áfram í sýningu hér á landi þegar RIFF lýkur.
Norðurlandafrumsýningar, Evrópufrumsýningar og heimsfrumsýningar verða í boði. Heitustu titlarnir bubbla í pottinum í ár og héru eru kynntar til leiks 10 sjóðheitar myndir en sumar þeirra unnu til verðlauna og hlutu mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor.
Hér ert á ferðinni verðlaunamynd í leikstjórn Marie Kreutzer. Hún var frumsýnd í vor á Canneshátíðinni og er samvinnuverkefni milli Austurríkis, Lúxemborgar, Þýskalands og Frakklands. Keisaraynjan, Elísabet af Austurríki, sem hefur verið dáð fyrir fegurð og fágaðan smekk í áratugi stendur á fertugu. Til að viðhalda ímynd sinni þarf ‘Sissi’ sífellt að herða meira á lífsstykkinu á sama tíma og formlegu hlutverki hennar sem leiðtoga þjóðarinnar hafa verið reistar skorður. Vín þrengir að henni eins og lífsstykkið sjálft og hún ferðast um Evrópu og heimsækir fyrrum elskhuga og gamla vini í leit að þeim lífskrafti og tilgangi sem einkenndi æskuárin.
Keisaraynjan gerir uppreisn gegn ofvaxinni ímynd sinni með áætlun um að vernda arfleið sína. Stórleikkonan Vicky Krieps leikur Sissi í þessari mögnuðu mynd og var verðlaunuð á Cannes fyrir frammistöðu sína.
Katalónski leikstjórinn Carla Simón er ein af helstu kvikmyndagerðarmönnum spænsku bylgjunnar. Í myndinni Alcarràs dregur hún upp ægifagra og næma mynd af órjúfanlegum fjölskylduböndum. Solé fjölskyldan, hefur ættliðum saman, ræktað ferskjur í spænska smábænum Alcarràs. Nú á að breyta notagildi jarðarinnar og Solé fjölskyldan horfir fram á útburð og breytta lifnaðarhætti. Það reynir á samskiptin í stórfjölskyldunni í erfiðum aðstæðum og í fyrsta skipti er framtíðin óræð. Fjölskyldan gæti misst meira en heimili sitt. Leikarahópur myndarinnar er skipaður fólki frá Lleida svæðinu, landbúnaðarfólki, sem var valið í löngu ferli, í miðjum heimsfaraldri.
Leikarahópurinn er samhæfður til sameiginlegs skilnings á því hverjir þeir eru og draga fram líkindi örlaga sögupersónanna við þeirra eigin líf. Skáldskapurinn rennur saman við raunveruleikann. Spænska bylgjan, sem Alcarràs er sannarlega hluti af, er drifin áfram af tilfinningu fyrir stað, tíma og tilfinningu og söguþráðurinn birtist, frekar en að senur meitli í stein mikilvægari atburði. Sinfónía senanna í heild dregur fram marglaga upplifun sem skilar dýpri skilningi en nokkur ein sena getur gert eða er ætlað að gera. Myndin hlaut Gullbjörninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín.
Á Tahiti þræðir landstjóri lýðveldisins og franski embættismaðurinn, De Roller, hvert skúmaskot, allt frá efsta lagi samfélagsins til hinna skuggalegustu staða. Hann blandar geði við háa sem lága og áhorfandinn fær innsýn í byrðarnar sem hvíla á herðum embættismannsins og hið viðkvæma pólitíska og félagslega jafnvægi á kyrrahafseyjunni. Orðrómurinn um endurupptöku á kjarnavopnatilraunum Frakka á svæðinu er ágengur. Hæg uppbygging myndarinnar og framsetning hennar samræmist fullkomlega lands- og loftslagi Tahiti eyjunnar í frönsku Pólinesíu. Albert Serra ýtir áhorfandanum inn í rakt og hættulegt andrúmsloftið í þessari listrænu, pólitísku spennusögu. Það er nánast hægt að þreifa stað, tíma og tilfinningu í hægri uppbyggingu sem afhjúpar umfang viðfangsefnisins taktfast og án undankomuleiða.
Benoît Magimel hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína sem landsstjórinn De Roller. Í beinhvítum nýlendubúningi dregur hann upp skýra mynd af þeim þrýstingi sem embættismaðurinn er undir, heimurinn allur og kvikmyndin sjálf.
Myndin er nærmynd af Leonard Cohen sem dregin er upp af óteljandi snertiflötum hans heimsfræga sálms, „Halleluja“ við heiminn: Stórbrotið ferðalag lagsins frá ófundvísri plötuútgáfu yfir á topplista, og hjartnæmar yfirlýsingar meiriháttar listamanna sem lagið á sérstakan stað í hjartanu hjá.
Emmy-verðlaunuðu leikstjórarnir og framleiðendurnir Geller og Goldfine hafa unnið saman að marglofuðum heimildamyndum sem flétta saman persónulegar frásagnir margra persóna til að draga upp stærri mynd af reynsluheimi fólks.
Myndin keppir um aðalverðlaunin í San Sebastian sem fram fer í september n.k og er Norðurlandafrumsýnd á RIFF. Lalo deilir nektarmyndum af sér og heimagerðu klámi fyrir fylgjendur sína í þúsundatali á samfélagsmiðlum. Lalo leikstýrir eigin lífi en þegar hann er einn og ekki í karakter virðist hann vera fastur í endalausri melankólíu. Hvað verður um löngun og þrá þegar lífið breytist í kynlífssýningu?
Kvikmyndagerðarmaðurinn Manuel Abramovich, sem einnig er þekktur sem kvikmyndatökumaður, notar klámframleiðslu Lalo sem upphafspunkt til að velta fyrir sér flóknu sambandi á milli nándar og framsetningu og tvískiptingu sýndar- og hversdagslífs í sítengdum heimi.
Myndin sló í gegn í Cannes í vor. Julia dregst inn í leynilega og hviklynda klíku á ólöglegri mótorhjólasamkomu þar sem hún leggur sig alla fram við að sanna sig fyrir hópi öfgakarlmenna. Hún þarf að horfast í augu við stigmagnandi kröfur sem munu skipta sköpum fyrir stöðu hennar í samfélaginu.
Leikstjórinn Lolu Quivoron hefur vakið mikla eftirtekt en þessi fyrsta mynd hennar í fullri lengd var verðlaunuð á Cannes kvikmyndahátíðinni, og er Norðurlandafrumsýnd á Íslandi á RIFF. Hún notar atvinnuleikara í bland við amatöra og leikaravalið fólst í ferli þar sem leikurum var blandað saman til að skoða hvernig þeir blönduðust saman. Spunasenur voru einnig nýttar til að slípa hlutverk leikaranna til sem og lokaútkomu myndarinnar. Lola telur stigveldið í leikstjórn ekki til bóta í kvikmyndagerð. Hún telur að lárétt nálgun teymisins skili betra verki.
Myndin verður Norðurlandafrumsýnd á RIFF og segir frá hinni ungu Zelmu sem þyrstir í ást og viðurkenningu. Söngvar og ævintýri höfðu alla tíð talið Zelmu trú um að ástin leysti úr öllum hennar flækjum svo lengi sem hún stæðist væntingar samfélagsins. Hún er ekki meðvituð um að hennar eigin líffræði er afl sem hefur áhrif á hana. Eftir því sem á ævina líður finnur hún að sannfæring hennar byggir ekki á traustum grunni.
Áhrifin af serótónín, dópamíni og noradrenalíni draga mjög úr þeirri samfellu sem hennar eigið líf hefur við háleitar væntingar um ástina. Því meira sem hún reynir að laga sig að ímyndinni, því meira viðnám veitir líkaminn. Þetta er saga um innri uppreisn, teiknimynd í fullri lengd fyrir fullorðna. Myndin var frumsýnd á Tribeca hátíðinni í New York og hlaut mikla athygli.
Frá kvikmyndagerðarmanni kvikmyndagerðarmanna, Alexandre O. Philippe, Kemur þessi heimildarmynd um áhrif Galdrakarlsins í Oz á feril David Lynch. Lynch/Oz er tíunda mynd Alexandre í fullri lengd og fjallar um varanlegt samlífi sívinsæla ævintýrisins, Galdrakarlinn í Oz, og sérstæðs stíls David Lynch í anda popp-súrrealisma.
Að venju sökkvir Alexandre sér í hin fjölmörgu lög vandaðrar kvikmyndagerðar og dregur fram það sem ekki er áþreifanlegt við fyrstu sýn. Hann nýtur aðstoðar glæsilegs hóps gagnrýnenda, rithöfunda og leikstjóra sem hver um sig draga upp sína einstöku mynd af Lynch og Oz. Frederic Boyer, listrænn stjórnandi RIFF, segir þá nálgun stækka sjónarhorn myndarinnar frá einfaldri greiningu til stærri hugleiðinga um eðli sköpunar og hvernig það sem við elskum mótar okkur og gerir okkur að þeim sem við erum.
Þetta stórbrotna meistaraverk Söru Dosa fylgir frönsku eldfjallasérfræðingunum og hjónunum Katiu og Maurice Krafft eftir, í rannsóknum þeirra á eldgosum. Hjónin, sem við fáum að vita strax í upphafi myndar, eru látin. Þau voru gleypt af ástríðu sinni fyrir eldfjöllum í bókstaflegum skilningi. Efnið sem Sara Dosa vinnur mynd sína úr er áralöng kvikmyndun hjónanna á störfum sínum.
Ástríða þeirra logar í gegnum störfin og kveikir ekki síður í áhorfandanum en stórbrotnar senur af sjóðheitum vítislogum úr iðrum jarðar. Nánast barnsleg hrifning þeirra á gangverki náttúrunnar, sérvitringsleg nálgun og rómantísk dulspeki færir bæði Krafft hjónin og áhorfandann eins nálægt náttúrukraftinum og sjónarspilinu og mögulegt er. Myndin var frumsýnd og verðlaunuð á Sundance kvikmyndahátíðinni í upphafi árs. Hún hefur víða verið lofuð fyrir bæði efnistök og myndefni af stórbrotnum náttúruhamförum og verður frumsýnd á Íslandi á RIFF.
Hér er á ferð stórkostlegt kvikmyndaævintýri á Grænlandsjökli, með þremur fremstu jöklavísindamönnum heims, í leit að þeim svörum sem ísinn getur gefið okkur um loftslagsþróun, fortíð og framtíð. Þetta epíska stórvirki hvetur okkur til umhugsunar um ábyrgð okkar og umhverfi. Þrátt fyrir margra ára rannsóknir veit enginn hversu hratt ísbreiða Grænlands bráðnar. Lars Ostenfeld reynir að komast að því með því að fara 200 metra niður í ísbreiðuna – lengra en nokkur hefur farið áður.
Lars býr yfir margra ára reynslu af vísinda- og náttúruheimildamyndagerð og hefur unnið að mörgum verðlaunaþáttum fyrir danska ríkissjónvarpið og TV2, Í samvinnu við DTU Space og stjarneðlisfræðinginn Anja C. Andersen frá Niels Bohr stofnuninni kom hann að beinni útsendingu danska ríkissjónvarpsins úr geimnum. Lars stóð einnig fyrir verkefninu The Polar Bear Live sem var sýnt á 200 skjáum á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2022. Myndin var opnunarmynd CPHDOX, einnar stærstu og bestu heimildamyndarhátíðar í Evrópu