Nýjustu fregnir herma að sjónvarpsþættirnir Ally McBeal séu á leið aftur á skjáinn. Þættirnir urðu afar vinsælir á tíunda áratugnum með Calistu Flockhart í aðalhlutverki. Þættirnir fjölluðu um einhleypa konu, lögfræðing sem starfaði á lögfræðistofu þar sem ýmislegt gekk á.
Ekki hafa allir fagnað óvæntri endurkomu þessara þátta og segja skilaboð þáttanna eigi síður en svo erindi til almennings í dag. Hannah Betts pistlahöfundur The Times er síður en svo spennt.
„Á tíunda áratugnum deildi ég íbúð með lögfræðingi á framabraut sem vildi ekkert frekar en að vera grönn og ljóshærð og festa ráð sitt með fyrrverandi kærastanum sínum og eignast með honum barn. Svo kom hún heim eftir langan vinnudag og horfði á sjónvarpsþátt sem fjallaði um granna, ljóshærða kvenkyns lögfræðing á framabraut sem vildi ekkert frekar en að eignast barn með fyrrverandi kærasta sínum. Þetta gerði ekkert nema að ýta enn frekar undir óraunhæfar væntingar sambýlingsins,“ segir Betts.
„Og hún var ekki ein um það. Allir virtust vera að horfa á þættina. Calista Flockhart lék lögfræðing á stofu í Boston sem vann með fyrrverandi kærasta sínum og núverandi kærustu hans og fékk reglulega ofskynjanir um dansandi barn.“
„Í nýju þáttaröðinni á aðalsöguhetjan að vera ung hörundsdökk kona sem gengur til liðs við sömu lögfræðistofu en ekki er vitað hvort Flockhart taki þátt í endurgerðinni.“
„Þættirnir voru svo glataðir að ég fór að hata allar konur fyrir að elska þessa þætti. Þetta var á tímum þar sem það þótti fínt að nota fatastærð núll og flottast var þegar það sást í beinin. Konu-börn sem tóku ekkert pláss. Sjálfsöryggi kvenna var af svo skornum skammti að þeim fannst þær ekki mega taka pláss í heiminum.“
„Þá var þetta líka á þeim tímum sem flestir hittu maka sína á vinnustað frekar en á netinu og sífellt var verið að stimpla því inn í undirmeðvitund kvenna að það væri líklegra að þær dæju í hryðjuverkaárás en að þær myndu finna maka eftir fertugt.“
„Þá var viðhorf McBeal til annarra kvenna líka slæmt. Hún var í stöðugri samkeppni við þær og barðist hatrammlega við þær í réttarsal eða í huga sínum þar sem hún gaf þeim gjarna rothögg.“
„Ef þið „googlið“ þáttinn þá kemur upp spurningin hvaða geðröskun hrjáir Ally McBeal og svarið er kona!“