Breska sjónvarpskonan Sarah Beeny greindi frá því í vikunni að hún hafi greinst með brjóstakrabbamein. Beeny hefur hafið meðferð, en hún er 50 ára að aldri.
Beeny er hvað þekktust fyrir að vera sérfræðingur í fasteignum og hefur haldið úti þáttunum Help! My House is Falling Down og Sarah Beeny's New Life In The Country.
Sjónvarpskonan greindi frá krabbameinsgreiningunni í viðtali við Telegraph í vikunni og sagðist þar hafa brotnað niður eftir að hafa fengið greininguna.
Móðir hennar glímdi einnig við brjóstakrabbamein og lést þegar Beeny var aðeins tíu ára gömul.
Hún hefur hafið lyfjameðferð við meininu og fyrirhugað er að hún fari í aðgerð og geislameðferð á næsta ári.
Þrátt fyrir greininguna stefnir Beeny á að halda áfram að vinna en hún er nú með nýja seríu í bígerð fyrir Channel 4 og bók sem koma á út seinna á þessu ári.
„Ég er heppin, því ég er í fjölskyldu þar sem við tölum öll saman,“ sagði Beeny.