Söngkonan Demi Lovato sér eftir því að hafa gert heimildarmyndir um líf sitt. Hún hefur barist við fíkn í gegnum tíðina og fest þá baráttu á filmu. Á síðustu tíu árum hafa þrjár myndir komið út.
„Ég er án gríns virkilega þreytt á því að horfa á sjálfa mig og ég held að annað fólk sé það líka. Ef fólk er ekki búið að fá nóg af mér þá má það horfa á tónlistarmyndböndin mín. Ég vildi að ég hefði beðið með að taka upp heimildarmynd þar til að ég væri koimin með mín mál á hreint. Edrúmennska er það eina sem virkar fyrir mig og ekkert annað,“ sagði Lovato í viðtali við Alternative Press.
Í nýjustu heimildarmyndinni Demi Lovato: Dancing with the Devil, er farið ýtarlega yfir þegar hún tók of stóran skammt árið 2018 og lést næstum því af völdum þess. Hún segir að eftir atvikið hafi hún orðið „Kaliforníuedrú“, sem þýðir að hún reykti ennþá gras og drakk áfengi í hófi. Ári seinna hafi hún þó hætt allri neyslu á vímugjöfum og sótt sér aðstoð.
„Sögu minni er ekki lokið. Því get ég gefið út bók einn daginn og sagt, þetta er fullorðna ég. Ég er búin að opna nýjan kafla í lífinu og ég vil að tónlistin mín endurspegli þennan kafla.“