Neytendastofu hefur borist kvörtun vegna myndbanda áhrifavaldsins Arnars Gauta Arnarssonar, betur þekktur sem Lil Curly, á TikTok. Þetta staðfestir Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, í samtali við mbl.is.
Þórunn segir að kvörtunin hafi borist nú í vikunni og ekki sé búið að taka hana fyrir eða ákveða hvað skuli gera í málinu.
Lil Curly hefur verið sakaður um að birta misvísandi efni á miðli sínum, TikTok, en þar eru vörur frá Coca Cola, Ben & Jerry's og Pizzunni áberandi í myndböndum hans. Sjaldan merkir hann myndbönd sín til að gefa til kynna að um samstarf eða auglýsingu sé að ræða. Lil Curly er með 1,3 milljón fylgjenda og hafa yfir 40 milljónir lækað myndbönd hans.
Við nokkur myndbönd hefur hann sett inn athugasemdir með hashtaginu #sp sem er stytting á #sponsored sem gefur til kynna að um samstarf sé að ræða. Undir nokkrum myndböndum hafa fylgjendur hans bent á að um dulda auglýsingu sé að ræða en fá svör hafa verið frá samfélagsmiðlastjörnunni.
Neytendastofa gaf út uppfærðar leiðbeiningar um auglýsingar á samfélagsmiðlum í gær. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar til að auðvelda þeim sem taka að sér að auglýsa vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi að standa rétt að merkingu auglýsinganna svo að skilyrðum viðeigandi laga sé uppfyllt.
Leiðbeiningarnar voru fyrst gefnar út árið 2015 en Þórunn segir að nauðsynlegt hafi verið að uppfæra reglurnar svo þær séu í takt við samfélagsmiðla nútímans. Auk þess hafi miklu fleiri ákvarðanir fallið tengdar auglýsingum á samfélagsmiðlum og því hægt að gefa nákvæmari upplýsingar um hvað megi og megi ekki.
Í leiðbeiningunum kemur meðal annars fram að duldar auglýsingar séu bannaðar sama hvar þær eru birtar. Lögn gilda um þau sem fá greitt fyrir að fjalla um vörur eða þjónustu á samfélagsmiðlum eða vefsíðum og einnig m fjölmiðla og fyrirtæki sem halda úti eigin vefsíðum eða samfélagsmiðlum.