Patrekur Jamie, áhrifavaldur og raunveruleikastjarna, virðist ekki ánægður með ummæli Birgittu Lífar Björnsdóttur, raunveruleikastjörnu og markaðsstjóra Word Class, í Íslandi í dag í vikunni. Hann segir orð hennar um að þættir þeirra stelpnanna, LXS á Stöð 2, séu fyrstu raunveruleikaþættirnir á Íslandi án handrits ekki rétt, það hafi verið þættirnir Æði sem hann stendur að.
Í viðtalinu í Íslandi í dag segir Birgitta að LXS séu fyrstu raunveruleikaþættirnir á Íslandi þar sem ekkert er leikið og ekki er stuðst við handrit. Þættirnir LXS fóru í loftið í ágúst á þessu ári. Þáttastjórnendur eru Birgitta Líf, Sunneva Eir Einarsdóttir, Ástrós Traustadóttir, Magnea Björg Jónsdóttir og Ína María Norðfjörð.
„Við strákarnir höfum allt okkar líf fyrir framan myndavélina og höfum aldrei haldið á handriti eða verið með eitthvað niðurskrifað,“ skrifar Patrekur á Instagram. Hann segir fyrstu seríuna hafa verið aðeins „pródúseraða“ en að það hafi verið af því þeir vissu ekki hvað þeir voru að gera.
„Æði var fyrsta raunveruleikasjónvarp á Íslandi, en það hætti strax og við byrjuðum á annarri seríu,“ segir Patrekur.
Patrekur bendir á að þeir strákarnir í Æði, Patrekur, Binni Glee, Bassi Maraj, Sæmundur og Gunnar Skírnir, séu allir kvenlegir og samkynhneigðir. Þeir séu líka tveir í hópnum sem eru ekki hvítir og að þeir veiti innsýn í líf sem ekki allir þekkja.
„Við höfum gert mjög mikið fyrir minnihlutahópa hér á landi og það er ekki í lagi að þið takið það frá okkur,“ segir Patrekur.
„En það er ekkert nýtt að sumar ykkar geri „grín“ að minnihlutahópum,“ segir Patrekur.
Hann segir að þegar hann var yngri hefði hann viljað sjá fólk eins og þá í sjónvarpinu.