Breskir fjölmiðlar fara hörðum orðum um Meghan Markle um þessar mundir. Nýjasta forsíðuviðtal Meghan við tímaritið The Cut hefur vakið mikla athygli bæði fyrir það sem hún segir og það hvernig hún lætur mynda sig.
Meghan er til að mynda gagnrýnd fyrir að vera með fjölmiðlafár örfáum dögum fyrir 25 ára dánarafmæli Díönu prinsessu. Þá er hún gagnrýnd fyrir að sækja innblástur sinn í forsíðumyndatöku til sjálfrar Díönu prinsessu og þykir mörgum það ósmekklegt.
Líkindin á forsíðumynd Meghan og myndar sem Patrick Demarchelier tók af Díönu prinsessu og síðar var notuð á forsíðum bóka um prinsessuna eru hins vegar talsverð.
„Líkindin eru sláandi. Svarti rúllukragabolurinn. Lágstemmd förðun. Horft beint í myndavélina. Getur þetta verið eitthvað annað en af ásettu ráði?,“ spyr Sarah Vine pistlahöfundur Daily Mail.
„Hún hefur gert þetta áður. Við skulum ekki gleyma að viðtalið við Opruh fór í loftið þegar Filippus prins var afar veikur og lést aðeins mánuði síðar. Enginn mátti standa í vegi fyrir að hún gæti sagt sinn sannleika.“
„Díana heitin hafði raunverulega ástæðu til þess að vera í nöp við konungsfjölskylduna. Hjónaband hennar var til dæmis sannarlega byggt á fölskum forsendum. Meghan þykist vera á sama stað en það er víðsfjarri. Díana þurfti að þola miklu meira harðræði, bæði í einkalífinu og út á við en Meghan hefur nokkurn tímann þurft að þola,“ segir Vine.