Foo Fighters-söngvarinn Dave Grohl mátti hafa sig allan við að halda aftur af tárunum á minningartónleikum sveitarinnar um Taylor Hawkins, trommuleikara hennar til aldarfjórðungs en Hawkins fannst látinn á hótelherbergi í Bogotá í Kólumbíu í mars þar sem til stóð að sveitin spilaði á tónlistarhátíð. Hann stóð þá á fimmtugu.
Minningartónleikarnir voru haldnir í gær á Wembley-leikvanginum í Lundúnum og seldust 75.000 miðar á tónleikana upp. Enginn hörgull var á stórstirnum úr tónlistarheiminum og má þar nefna sir Paul McCartney, Queen, AC/DC, Liam Gallagher auk fjölda annarra listamanna.
Ekki voru þó allir sem fram komu eins gamlir í hettunni og McCartney og aðrir eldri listamenn því hin tólf ára gamla Nandi Bushell lék á trommurnar í Foo Fighters-laginu Learn to Fly en Bushell öðlaðist heimsfrægð á samfélagsmiðlum þegar hún skoraði Grohl á hólm í trommueinvígi á meðan heimsbyggðin sat meira og minna innilokuð heima hjá sér í kórónufaraldrinum.
Kynnti Grohl stúlkuna til leiks sem „einn harðskeyttasta trommara sem ég hef hitt um mína daga“. Eins kom Violet, dóttir Grohl, fram á Wembley í gær en hún þekkti Hawkins heitinn alla sína ævi. Flutti Violet lögin Grace eftir Jeff Buckley og útgáfu Amy Winehouse heitinnar af laginu Valerie á meðan faðir hennar fylgdist stoltur með af hliðarlínunni.