Brendan Fraser þykir sigurstranglegur á Óskarsverðlaunaathöfninni en hann leikur aðalhlutverk í kvikmynd Darren Aronofsky The Whale sem fékk afar góðar viðtökur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. The Whale er sálfræðilegt drama sem fjallar um samkynhneigðan mann sem glímir við ofþyngd og notast við hjólastól.
Kvikmyndin var forsýnd í Feneyjum og hlaut Fraser standandi uppklapp sem varði vel og lengi og táraðist hann við móttökurnar enda ljúfsár stund eftir að hafa gengið í gegnum dimma dali Hollywood.
Ferill Fraser hefur síður en svo glæsilegur síðustu ár en hann naut mikilla vinsælda sem grín- og hasarmyndahetja á tíunda áratugnum og lék í vinsælum myndum á borð við The Mummy, Journey to the Center of the Earth, Blast from the Past, George of the Jungle svo fátt eitt sé nefnt. Síðan þá hefur ferillinn legið í dvala en hann hefur glímt við mikið mótlæti í lífinu.
Fraser fór afar illa með líkama sinn við gerð allra hasarmyndanna. Hann lék mikið af áhættuatriðunum sjálfur og þurfti í kjölfarið að fara í fjölmargar sársaukafullar aðgerðir til þess að laga hné, bak og raddbönd.
Þá kom hann einnig fram í Me-too bylgjunni og lýsti kynferðislegri áreitni sem hann varð fyrir sem hafði mikil og neikvæð áhrif á hann og hvarf hann af sjónarsviðinu.
„Ég varð þunglyndur og kenndi sjálfum mér um allt,“ sagði hann í viðtali við GQ. Þá gekk Fraser í gegn um erfiðan skilnað 2007 sem gerði þunglyndið verra.