Spjallþættirnir Vikan með Gísla Marteini snúa aftur á skjáinn á föstudaginn kemur, 9. september. Auglýsing fyrir þættina kom út í dag.
Í auglýsingunni, sem notið hefur vinsælda á Facebook, eru athugasemdir frá „virkum í athugasemdum“ notaðar. Gísli Marteinn Baldursson er stjórnandi þáttanna sem sýndir eru á Rúv og Berglind Festival Pétursdóttir fer á stúfana í þáttunum.
„Hrein hörmung“ og „Er þetta helvíti að byrja aftur?“ eru á meðal athugasemda sem notaðar eru í auglýsinguna. Rúv birti auglýsinguna á Facebook nú í morgun og inn hafa hrannast athugasemdir bæði jákvæðar og neikvæðar.
Rúv getur bætt í safn sitt af ljótum athugasemdum en Júlíus nokkur Kristjánsson skrifaði við auglýsinguna: „Þarf hann að troða sér á Facebookina líka til að auglýsa sig“. „Ekki viss en svo er Kappsmál að byrja líka og það sko mikið skemmtilegra, ég horfi alltaf á það,“ skrifaði Jóhanna Sigríður Daníelsdóttir.
Vikan með Gísla Marteini fer í loftið á föstudaginn klukkan 21:05, beint á eftir Kappsmáli, sem gleðja ætti téða Jóhönnu.