Listamaðurinn Snorri Ásmundsson segist hafa fengið þá ömurlegu hugmynd í gær að fara í bíó að sjá kvikmyndina Beast, í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Snorri er á flakki um Evrópu um þessar mundir vegna vinnu og fór á kvikmyndina í París. Hann segir frá á Facebook.
„Ég fékk ömurlega hugmynd í dag og ég vissi hún væri ekki góð, en var bara pínu forvitinn. Hugmyndin var að fara á nýju myndina hans Baltasars Kormáks sem heitir „Beast“ í kvikmyndahúsi hérna í París. Handritið er svo heimskt að ég man ekki eftir öðru eins. Eina prikið sem þessi mynd fékk var að ég gekk ekki út úr bíóinu eftir 10 mínútur, en hefði gert það hefði ég farið einn í bíó og hefði betur gert það. Þvílíkt og annað eins rusl,“ skrifar Snorri.
Kvikmynd Baltasars var frumsýnd um víða veröld í ágúst en með aðalhlutverk fer leikarinn Idris Elba.
Snorri hefur komið víða við í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Í vor var hann oddviti Kattaframboðsins á Akureyri, fyrir köttinn Reykjavík, en það var ekki í fyrsta skipti sem hann bauð sig fram í sveitarstjórnarkosningum. Árið 2002 leiddi hann framboð Vinstri hægri snú og ári seinna bauð hann sig fram til forseta.