Krýsuvíkurvegur á Reykjanesi er lokaður til klukkan átta í kvöld. Ástæða lokunarinnar eru tökur á annarri þáttaröð af þáttunum Halo sem fram fara á Íslandi um þessar mundir.
Vegurinn var einnig lokaður síðasta laugardag og dagana 29. til 31. ágúst af sömu ástæðu.
True North annast tökurnar hér á Íslandi en um er að ræða þætti sem byggðir eru á tölvuleikjunum vinsælu Halo sem Xbox Games Studios framleiða. Þættirnir eru framleiddir fyrir streymisveituna Paramount+ og fór fyrsta sería í loftið á streymisveitunni hinn 24. mars síðastliðinn. Leikstjórinn Steven Spielberg er á meðal aðalframleiðanda.
Þættirnir gerast í framtíðinni, nánar tiltekið á 26. öld og fjalla um stríð á milli mannkynsins og geimvera. Pablo Schreiber og Jen Taylor fara með hlutverk í þáttunum.
Fyrsta sería var tekin upp í Kanada en tökur voru fluttar til Búdapest í Ungverjalandi vegna heimsfaraldursins. Fyrirhugað er að önnur sería fari í loftið um mitt ár 2023.