Stefnumótaappið Smitten og kynlífstækjaverslunin Blush blása til skyndistefnumótakvölds á Sólon í miðborg Reykjavíkur hinn 9. september næstkomandi. Um er að ræða eðaltækifæri til að kynnast ástinni en Páll Óskar mun troða upp að stefnumótum loknum.
Kynnir er Birna Rún Eiríksdóttir leikkona og mun hún halda uppi stuðinu, en plötusnúðurinn Sunna Ben mun þeyta skífum og halda öllum í rómantísku stuði. Allir gestir fá svo glaðning frá Blush og því geta allir farið sáttir heim, sama hvort þeir finna ástina eða ekki.
„Við elskum að hjálpa fólki að finna ástina og í þetta skiptið höfum við ákveðið að halda hraðstefnumót í stíl Smitten. Við viljum færa leikina sem við erum með í appinu yfir í raunveruleikann með því markmiði að einfalda einstaklingum að brjóta ísinn og byrja spjalla. Á hverju borði verða Guessary spil með spurningum eins og „Hefurðu farið heim með ókunnugum?“ eða „Hefurðu verið handtekin?“,” segir Unnur Ársælsdóttir, markaðsfulltrúi Smitten.
Stefnumótin ganga þannig fyrir sig að hver þátttakandi fær tvær mínútur til að spyrja deitið sitt spurninga og svo er skipt um hlutverk.
Eftir samtalið færir annar aðilinn sig um set og allir fá nýja manneskju til að spjalla við. Því ætti öllum að gefast tækifæri á að kynnast og ákveða hvort þau vilji halda samræðunum áfram að kvöldinu loknu. Smitten mun útvega spurningar til hjálpa þeim sem þurfa aðstoð við að brjóta ísinn og koma samræðunum á flug.
Allir eldri en 20 ára eru velkomnir og eru vinir og vinkonur þátttakenda hvattir til að koma með og sýna stuðning við sitt fólk.
Að hraðstefnumótunum loknum mun stuðið halda áfram og lokar Páll Óskar kvöldinu. Húsið opnar klukkan 20 og hefjast stefnumótin klukkan 20:30.