Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptráðherra, kynnti Ísland sem vænlegan tökustað fyrir Netflix á fundi með fulltrúum streymisveitunnar í Los Angeles í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins og haft eftir Lilju að hún haf sterka sannfæringu fyrir mikilvægi þess að búa skapandi greinum hagfelld skilyrði á Íslandi.
Á fundinum fór ráðherra meðal annars yfir nýsamþykktar breytingar á lögum um endurgreiðslur framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð sem fela í sér hækkun úr 25% í 35% að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmið breytinganna er að laða að stærri erlend kvikmyndaverkefni sem alfarið verða unnin á Íslandi.
Breytingarnar eru liður í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem kynnt var árið 2020 en ýmsum aðgerðum í stefnunni hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd, allt frá vegvísi um sjálfbærni í kvikmyndagerð til nýrrar kvikmyndadeildar við Listaháskóla Íslands.
„Nýleg hækkun á endurgreiðsluhlutfalli mun auka alþjóðlega samkeppnishæfni landsins í kvikmyndaheiminum og hafa jákvæð margfeldisáhrif á íslenskt samfélag. Í kvikmyndagerð eru fjölmörg spennandi og vel launuð störf, sem skemmtilegt er að takast á við. Ísland hefur margt fram að færa á þessu sviði, góða innviði og mannauð ásamt stórbrotinni náttúru,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Fundurinn er hluti af ferð ráðherra til Los Angeles sem skipulögð er af Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.