Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja af Sussex eru á leið til Balmoral-kastala í Skotlandi. Heilsu Elísabetar II. Bretadrottningar hefur hrakað mikið þessa vikuna og er hún nú undir stöðugu eftirliti lækna. Harry er yngri sonur Karls Bretaprins.
Talsmaður Harry og Meghan staðfesti að þau væru á leið norður til Skotlands, en hjónin voru stödd í Bretlandi vegna vinnu. Þau eru annars búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum með börnum sínum tveimur. Börn þeirra, Archie og Lilibet, eru heima í Bandaríkjunum.
Buckingham-höll sendi frá sér tilkynningu í morgun um slæmt heilsufar drottningarinnar en slík tilkynning frá höllinni þykir nokkuð óvanaleg.
Anna prinsessa, dóttir drottningarnar, var þá þegar stödd í Bretlandi en Andrés Bretaprins og Játvarður Bretaprins komu þangað í morgun.
Karl Bretaprins, elsti sonur drottningarinnar og ríkisarftaki, kom til Skotlands í morgun ásamt eiginkonu sinni Kamillu hertogaynju af Cornwall. Vilhjálmur Bretaprins, eldri sonur Karls, er einnig á leið til Balmoral-kastala.
Eiginkona Vilhjálms, Katrín hertogaynja af Cambrigde, er heima í Adelaide Cottage, í grennd við Windsor-kastala, en börn þeirra þrjú, Georg, Karlotta og Lúðvík, byrjuðu í nýjum skóla í morgun.