Læknar fylgjast nú grannt með líðan Elísabetar II Bretlandsdrottningar í Balmoral í Skotlandi þar sem hún dvelur. Læknar hafa haft vaxandi áhyggjur af heilsu hennar að því er fram kemur í tilkynningu frá höllinni í dag.
„Eftir skoðun morgunsins hafa læknar hennar hátignar áhyggjur af heilsu hennar og mæla með því að hún verði undir eftirliti,“ segir í tilkynningunni. Drottningin mun því verða um kyrrt í Balmoral-kastala að svo stöddu. Balmoral-kastali er sumardvalarstaður bresku konungsfjölskyldunnar.
Nánasta fjölskylda hefur verið látin vita og eru Karl Bretaprins, elsti sonur hennar og ríkisarftaki, og eiginkona hans Kamilla hertogaynja af Cornwall á leið eða komin til Balmoral-kastala. Vilhjálmur Bretaprins, elsti sonur Karls, er einnig á leið til Skotlands.
Drottningin hefði átt að taka þátt í viðburði í gær, miðvikudag, en læknar réðu henni frá því. Átti hún einnig að hitta sína helstu ráðgjafa í stjórnmálum í gær en gerði það ekki af læknisráði.
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, skrifaði á Twitter nú í morgun að þjóðin fylgist áhyggjufull með heilsu drottningarinnar.
„Hugur minn, og hugur allra í Bretlandi, er hjá hennar hátign og fjölskyldu hennar núna,“ skrifaði Truss.
Drottningin hitti Truss á fundi fyrr í vikunni þegar Truss tók við embætti forsætisráðherra, eftir að Boris Johnson sagði af sér. Hefur því verið óvenju mikið að gera hjá hennar hátign í þessari viku.
Justin Welby, erkibiskup af Cantenbury, biður fyrir henni. „Megi návist Guðs veita hennar hátign og fjölskyldu hennar styrk,“ tísti erkibiskupinn.
Þykir heldur óvanalegt að höllin sendi frá sér tilkynningu sem þessa um heilsufar drottningarinnar. Heilsu hennar hefur hrakað undanfarið árið og þrátt fyrir að vera sýnilega heilsuminni en áður hefur höllin lítið tjáð sig um það á árinu.
Hin 96 ára gamla Elísabet fagnar 70 ára krýningarafmæli sínu í ár, en hún tók við krúnunni árið 1952. Af því tilefni hefur höllin staðið að fjölda viðburða en drottningin aðeins tekið þátt í hluta þeirra vegna heilsu sinnar.
Í vor var fjögurra daga dagskrá í Lundúnum, en tók hún aðeins þátt í tveimur dagskrárliðum vegna heilsu sinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.