Barnaþættirnir Gurra Grís hafa kynnt til leiks samkynhneigt par, en í þættinum „Fjölskyldur“ sem fór í loftið í Bretlandi á þriðjudaginn segir ísbjörninn Penný Gurru frá móður sínum tveim.
„Ein mamman er læknir og hin mamman eldar spagettí,“ segir Penný. „Ég elska spagettí.“
Robbie de Santos, úr Stonewall, félagi hinsegin fólks, segir frábært að sjá samkynhneigt par í Gurru Grís.
„Margir sem horfa á þættina eiga tvær mömmur eða tvo pabba og það hefur mikla þýðingu fyrir foreldra og börn að þeirra upplifun séu í svona feikisvinsælum þáttum,“ sagði hann í samtali við BBC.
Þess má geta að þættirnir Tommi Togvagn (e. Thomas & Friends), sem eru einnig vinsælir í Bretlandi kynna til leiks einhverfa persónu seinna í mánuðinum. Persónan Bruno the Brake Car er einhverf en hún er skrifuð í samráði við höfunda með einhverfu.