„Hún var yndisleg manneskja og mér þótti mjög vænt um hana. Ég sé mikið eftir henni,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, um Elísabetu II. Bretadrottningu. Elísabet lést fyrr í dag, 96 ára að aldri.
Vigdís hitti drottninguna oft í forsetatíð sinni, frá 1980 til 1996, og komu Elísabet og Filippus hertogi af Edinborg í opinbera heimsókn hingað til Íslands árið 1990.
„Hún var hin mætasta manneskja, og þau hjónin bæði,“ segir Vigdís.
„Það var mjög gaman hjá okkur. Við fórum í Krýsuvík og hún hvarf inn í gufuna. Mountbatten sagði: „Where is that woman going?“,“ segir Vigdís og hlær, og vísar þar til Filippusar prins.
Hún segir þær Elísabetu hafa haft náð mjög vel saman. Þær hafi getað talað um allt milli himins og jarðar.
„En aldrei neitt neikvætt, bara jákvætt. Hún var hláturmild og ég líka.“