Tæplega er algengt að sitjandi þjóðarleiðtogi sendi frá sér skáldskap þótt dæmi séu um slíkt.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur unnið að glæpasögu ásamt glæpasagnahöfundinum kunna Ragnari Jónassyni eins og greint hefur verið frá. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að bókin muni koma út hinn 25. október næstkomandi. Mun hún einfaldlega heita Reykjavík.
Ragnar birtir í færslu á samfélagsmiðlum eftirfarandi lýsingu á efnistökunum: „Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey. Eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni, það er reglulega rifjað upp í fjölmiðlum án þess að nokkuð komi fram sem skýri örlög hennar. Í ágúst 1986 fer hins vegar ungur blaðamaður á Vikublaðinu að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirséðum afleiðingum.
Í sögunni ætlum við Katrín Jakobsdóttir að bjóða lesendum í ferðalag á vit sumarsins þegar Reykjavík átti 200 ára afmæli, Bylgjan og Stöð 2 voru að fara í loftið og leiðtogafundur Reagans og Gorbatjovs stóð fyrir dyrum. Og þetta sumar komu líka fram óvæntar vísbendingar um afdrif Láru Marteinsdóttur.“