Rúmlega 700 börn og veikir eða slasaðir bangsar leituðu sér læknisþjónustu á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Um er að ræða hinn árlega bangsaspítala sem Lýðheilsufélag læknanema stendur fyrir.
Markmið bangsaspítalans er annars vegar að fyrirbyggja hræðslu barna við lækna og hins vegar að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn og aðstandendur.
Bangsaspítalinn var opinn frá 10 til 16 á heilsugæslunum í Efstaleiti, Höfða og Sólvangi í dag.
Að sögn Melkorku Sverrisdóttur, læknanema og eins skipuleggjenda spítalans, gekk dagurinn vel og var mikil stemning á stöðunum þrem.
Auka metnaðarfullra læknanema voru Íþróttaálfurinn og Solla stirða á staðnum og heilsuðu upp á börnin og bangsana.
Í næstu viku, þann 17. september, mun bangsaspítalinn mæta norður á Akureyri í fyrsta skipti. Alls munu níu fyrsta árs læknanemar mæta norður.