Andrés Bretaprins mun taka við corgi-hundum Elísabetar Bretadrottningar.
Fréttastofa BBC greinir frá þessu.
Corgi-hundarnir tveir Muick og Sandy munu búa hjá Andrési, hertoga af York og Söru, hertogynju af York, í kjölfar andláts Elísabetar í síðustu viku. Andrés færði Elísabetu hundana tvo að gjöf árið 2021.
Elísabet Bretadrottning átti fleiri en 30 corgi-hunda á lífstíð sinni. Andrés ásamt dætrum sínum tveim, Beatrice og Eugenie, gaf Elísabetu Muick sem gjöf þegar Filippus prins lá á spítala stuttu fyrir andlát sitt.
Elísabet fékk síðar Sandy að gjöf frá Andrési þegar hún fagnaði 95 ára afmæli sínu.