Andrés Bretaprins mun ekki klæðast einkennisbúningi hersins í útför móður sinnar, Elísabetar II Bretadrottningu, líkt og aðrir í bresku konungsfjölskyldunni. Andrés afsalaði sér öllum hertitlum sínum í upphafi árs vegna tengsla sinna við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell.
Þá notast hann ekki lengur við titilinn, hans hátign, eða His Royal Highness.
Andrés sást keyra til Balmoral-kastala á fimmtudag þegar greint var frá veikindum drottningarinnar. Hún lést skömmu síðar. Þá var hann einnig með systkinum sínum á laugardag og sunnudag í Skotlandi.
Eldri meðlimir konungsfjölskyldunnar verða í herbúningum við útförina en Andrés mun bara verða í litum hersins.
Andrés, sem stundum hefur verið kallaður uppáhaldssonur drottningarinnar, var sakaður um að hafa brotið kynferðislega á 17 ára stúlku árið 2001. Sagði stúlkan að Epstein hafi fært prinsinum hana.
Hann hefur neitað þessum ásökunum og náði sáttum í einkamáli sem hún höfðaði gegn honum í Bandaríkjunum.
Spekingar hafa spáð því að bróðir hans, Karl III, sem tók við krúnunni af móður þeirra, muni beita sér harðar í máli Andrésar og gera hann útlægan úr konungsfjölskyldunni fyrir fullt og allt.
Þegar kemur að herbúningum er enn óvíst hvort Harry Bretaprins, yngri sonur Karls, muni klæðast sínum búning. Hann sagði sig frá konungsfjölskyldunni í upphafi árs 2020 og hefur ekki sinnt opinberum störfum á vegum fjölskyldunnar síðan í mars sama ár.